Biðin langa

Ragnar Sverrisson.
Ragnar Sverrisson.

Í frétt blaðsins 20. desember síðast liðinn., undir fyrirsögninni „Óvissa um uppbyggingu samgöngumiðstöðvar,“ er vakin athygli á stoppistöðinni við Hof þar sem landsbyggðarstrætóinn hleypir farþegum út og tekur á móti nýjum við glæfralegar aðstæður. Má raunar þakka Guði fyrir að ekki hafa orðið þar alvarleg slys enda aðstæður gjörsamlega óboðlegar og til lítils sóma fyrir bæinn.

Aðspurður um þetta ástand sagði Guðmundur Baldvin, vinur minn, formaður bæjarráðs við blaðið: „Eitt af því sem við höfum verið að fylgjast með er hvort ríkið ætli að koma að uppbyggingu samgöngumiðstöðvar,“ en það hafi eitthvað viðrað að koma að því verki án þess að nokkuð sé fast í hendi.  Hann bætti jafnframt við að bærinn ætli „líka að bíða og sjá hvernig uppbyggingin verður í miðbænum.“  Sem sagt, halda áfram að bíða og sjá til. Bæjarstjórn mun greinilega ekki sýna frumkvæði á nokkurn hátt í þessu mikilvæga máli og þaðan af síður að beita sér fyrir að hlutirnir gerist.  Á meðan verður áfram boðið upp á þessa stórhættulegu stoppistöð við Hof og haldið í þá von að ekkert slys verði þar með alvarlegum afleiðingum. Til greina komi þó, að sögn Guðmundar Baldvins, að gera einhverjar bragabætur  á þessu hallærisástandi við Hof á næsta ári. Það er bara ekkert annað!  Þá hlýtur sú spurning að vakna hvort verið sé að bíða eftir alvarlegu slysi þarna? Auðvitað ætlar maður engum slíkt kæruleysi og því er þessi doði algjörlega óskiljanlegur. Þetta er þeim mun furðulegra athafnaleysi þegar þess er gætt að bæjarstjórn hefur þegar ákveðið (árið 2014) hvernig á þessum málum skuli tekið og þar af leiðandi er vandræðagangurinn með öllu fráleitur auk þess að vera stórhættulegur.

Með núgildandi deiliskipulagi miðbæjarins var ákveðið að byggja umferðar- eða samgöngumiðstöð á ágætum stað fyrir norðan ráðhúsið. Um þetta var full samstaða í bæjarstjórn og áhersla lögð á nauðsyn slíkrar „miðstöð(var) almenningssamganga, hvort sem er innanbæjar eða landshluta á milli,“ eins og segir í greinargerð deiliskipulagsins. Enda þótt slysahættunni sé sleppt – sem  þó er nógu alvarlegur hluti málsins – verður að hafa í huga að umferðarmiðstöð gegnir mjög þýðingarmiklu hlutverki í bæ sem ætlar sér í alvöru að stuðla að eflingu ferðaiðnaðar og fjölga störfum. Slík miðstöð þarf að bjóða upp á fyrsta flokks aðstöðu fyrir langferðabíla og strætisvagna bæjarins, góðar og aðgengilegar upplýsingar fyrir ferðamenn, salernisaðstöðu fyrir gesti og gangandi í miðbænum og vera auk þess miðstöð fyrir leigubíla. Allt á sama stað í hjarta miðbæjarins og hægur vandi fyrir gesti og gangandi að fara þaðan til allra átta. Ekkert af þessu er fyrir hendi í dag á einum stað til mikils tjóns og vansa fyrir bæinn.  Því er með öllu ófært að bíða og sitja aðgerðarlaus og vona að ríkisvaldið eða einhverjar aðrar furðuverur hafi frumkvæði í svo þýðingarmiklu máli fyrir hagsmuni bæjarins. Reynslan á að hafa kennt okkur að slík bið er vonlítil því við verðum að beita okkur sjálf af fullum þunga og þá, og þá fyrst, er hugsanlegt að fleiri hafi áhuga á að taka þátt í verkinu, hvort sem það er ríkið, félög eða einstaklingar.  En frumkvæði okkar Akureyringa sjálfra ræður alltaf úrslitum.

Ekki tek ég mikið mark á þeim viðbárum að bænum sé ofviða að hanna og byggja slíka umferðarmiðstöð. Þessi sami bær hefur staðið með glæsibrag að meiri framkvæmdum en einu húsi af því tagi sem hér er til umræðu.  Í því sambandi er hægt að nefna margar slíkar framkvæmdir á sviði íþrótta, lista og þjónustu við bæjarbúa þar sem bærinn hefur ekki talið neitt eftir sér og uppskorið árangur sem tekið hefur verið eftir og full ástæða fyrir bæjarbúa að vera stolltir af.  En nú geta þessir sömu bæjarbúar sannarlega ekki verið hreiknir af þeirri aðstöðu sem ferðafólki sem kemur í bæinn er búin.

Undanfarið hefur verið bent á að mannfjölgun hér á Akureyri hafi verið talsvert fyrir neðan meðallag á landinu öllu.  Þá hafa menn auðvitað leitt hugann að auknum atvinnutækifærum og meðal annars nefnt ferðaþjónustu í því sambandi og nauðsyn þess að efla hana og styrkja. Til þess að slíkar væntingar verði að veruleika þurfa innviðirnir í bænum sjálfum að vera í lagi.  Ekki dugar að láta ferðafólk fara úr rútunum á hættulegum stöðum og ráfa þar um í ráðaleysi, heldur er ekki boðlegt að þeir þurfi að leita sér að afviknum stöðum til að létta á sér og enn síður vænlegt til árangurs ef þeir finna ekki á einum stað aðgengilegar upplýsingar (info) um svæðið ásamt með leiðbeiningum frá fagfólki um það sem er í boði í bænum og nágrenni hans.

Allir sem koma að ferðaþjónustu vita að þessir hlutir verða vera í lagi og bærinn þarf að koma sem allra fyrst upp fyrirmyndar aðstöðu fyrir ferðamenn í góðu samstarfi við áhugafólk og  hagsmunaaðila. Að öðrum kosti fara atvinnutækifæri hjá garði vegna þess að menn eru einlægt að bíða eftir því sem aldrei kemur eins og þeir félagar Vladimir og Estragon upplifðu í leikritinu góða Beðið eftir Godot.

-Ragnar Sverrisson, kaupmaður

 

 

 

 


Nýjast