Akureyrarflugvöllur og ábyrgðin

Ragnar Sverrisson
Ragnar Sverrisson

Þegar horft er upp á aðgerðarleysi annarra í mikilvægum málefnum er auðvitað virðingarvert þegar einhver tekur af skarið og gerir hlutina bara sjálfur enda löngu vitað að þeir gerast ekki ef enginn beitir sér. Auk þess er slíkt framtak til marks um kristilegt innræti og vilja til að láta gott af sér leiða þegar þeir sem hafa tekið að sér verkin standa aðgerðarlausir með hendur í vösum, jafnvel þegar öryggi og líf manna er í húfi. Rennur mönnum þá oft blóðið til skyldunnar; nenna ekki að horfa upp athafnaleysið og ganga fram fyrir skjöldu.

Þannig hefur áreiðanlega verið komið málum þegar bæjarfulltrúa í okkar ágæta bæ þraut þolimæðin og kom fram með tillögu þess efnis að leita samninga við ríkisvaldið um að bærinn taki að sér rekstur Akureyrarflugvallar sem er og hefur verið á vegum ríkisins. Hugsunin er eflaust sú að ef bæjarfélagið taki að sér reksturinn aukist  líkur á að völlurinn standi undir nafni sem alþjóðaflugvöllur enda hljóti bærinn og bæjarbúar að hafa meiri áhuga á því en ríkið.  Með því yrði varanlegt beint flug til og frá útlöndum tryggt til framtíðar því sjálfs er höndin hollust.  Slíkt viðhorf er skiljanlegt í vondri stöðu en þó kennir reynslan að margs er að gæta í því sambandi.

Hlutverk Akureyrarflugvallar er að tryggja flugsamgöngur til og frá Norðurlandi og ennfremur að vera varaflugvöllur – ásamt Egilsstaðaflugvelli - fyrir alþjóðaflugvöllinn í Keflavík.  Ekki þarf að fjölyrða um mikilvægi Akureyrarvallar þegar horft er til þess að auka ferðamannastrauminn frá útlöndum til Norðurlands allan ársins hring.  Auðvitað er algjörlega óviðunandi að ekki sé hægt að treysta á flugvöllinn vegna aðstöðuleysis og tækjaskorts eins og nú er.  Afleiðingin er sú að ferðaþjónustan á Akureyri og nágrenni er í öldudal stærstan hluta ársins á sama tíma og erlendir ferðamenn flykkjast í  miklum mæli til Suður- og Vesturlandsins allt árið. 

 

Við þetta bætist svo það öryggisleysi sem nú ríkir í flugsamgöngum til landsins vegna þess að varaflugvellirnir standa ekki undir nafni.  Samtök flugmanna bentu nýlega á að mikið alvöruásand gæti skapast ef Keflavíkurflugvöllur lokast skyndilega í lengri eða skemmri tíma og ekki væri hægt að nýta varaflugvellina vegna þess að þeir gætu hvorki tekið á móti  flugvélum í öllum veðrum né hafi flughlöð fyrir fjölda véla.  Hvað myndi til dæmis gerast ef skyndilega færi að gjósa á eldsvæðinu á Reykjanesi eða ef önnur náttúruvá kæmi skyndilega í veg fyrir að flugvélar gætu lent í Keflavík?  Ekki þarf að deila um þann mikla þunga sem myndi við þær aðstæður leggjast á þá sem ábyrgð bæru á ástandi varaflugvallanna. Erum við Akureyringar tilbúnir til að axla þá gríðarlegu ábyrgð einir og sér vegna samninga sem gerðir yrðu við ríkisvaldið um rekstur flugvallarins hér?  Það er mér mjög til efs.

Það er því mikið álitamál hvort skynsamlegt er að Akureyrarbær eigi að sækjast eftir því að taka að sér rekstur flugvallarins, jafnvel þó ríkisvaldið lofaði að fjármagna uppbyggingu og rekstrarkostnað. Nægir að benda á ýmis verkefni sem sveitafélög hafa tekið að sér frá ríkinu með loforði um fjármögnun úr ríkissjóði. Þar hefur ekki alltaf verið á vísan að róa þó samningar kveði á um greiðsluskyldu ríkisins og oft skellt við skollaeyrum þegar sveitafélögin hafa kvartað undan því. Þau hafa síðan setið uppi með fjárhagslegt tap á öllu saman auk þess að hafa tekið á sig ábyrgð á viðkomandi málaflokkum gagnvart sínum þegnum.

Mín skoðun er því sú að það breytti litlu ef nokkru um þróun og rekstur flugvallarins þó bæjaryfirvöld tækju að sér rekstur hans með þeim fjárútlátum og ábyrgð sem því fylgir. Eftir sem áður mun ríkið halda að sér höndum um fjárveitingar til að gera það sem gera þarf í þessum efnum.  Ekki kennir reynslan okkur að bæjaryfirvöld hafi betri möguleika eða getu til að kreista meira fé úr ríkissjóði til flugvallarins en þingmenn kjördæmisins, sem eru auðvitað þrýstihópur okkar gagnvart ríkisvaldinu í máli eins og því sem hér er til umræðu.  Þeir mættu eftir sem áður láta mun meira að sér kveða í þessu mikla hagsmunamáli okkar Norðlendinga.

Að þessu sögðu tel ég einsýnt að stjórnmálafélög í bænum gætu líka þrýst meira á fulltrúa sína á þingi um að þétta raðir allra þingmanna kjördæmisins og ganga samstíga af meiri krafti fram svo flugvöllurinn á Akureyri standi undir nafni sem alþjóðlegur varaflugvöllur og gegni jafnframt hlutverki sínu til að auka straum ferðamanna allan ársins hring.   Þar eru í húfi miklir hagsmunir, atvinnutækifæri og svo auðvitað öryggi flugvéla í millilandaflugi eins og flugmenn hafa bent á.  Stjórnmálafélög bæjar eins og Akureyrar eru ekki einasta spjallklúbbar heldur virkt lýðræðisafl sem getur gegnt mikilvægu hlutverki til að tryggja samstöðu um að koma hinum fjölbreyttu áhugamálum íbúa til framkvæmda hvort sem þau eru á könnu einstakra sveitafélaga eða ríkisins.

-Ragnar Sverrisson, kaupmaður

 

 


Nýjast