Áfram Akureyri – áfram lýðræðið

Hilda Jana Gísladóttir
Hilda Jana Gísladóttir

Þrátt fyrir að ýmislegt í stefnuskrám stjórnmálaflokka hér á Akureyri sé keimlíkt, þá eru áherslur þeirra enn ansi ólíkar. Þær endurspegla ólíka forgangsröðun og flestum tilfellum ólíka grundvallar hugmyndafræði. Hugmyndafræði skiptir nefnilega sköpum. Ef engin hugmyndafræði er höfð að leiðarljósi, þá er kjósendum ekki ljóst út frá hvaða forsendum brugðist er við skyndilegum úrlausnarefnum og hvert er stefnt til lengri tíma litið. Sumir telja það galla að tilheyra stjórnmálaflokki á landsvísu. Ég hef meira að segja heyrt suma ganga svo langt að halda því fram að við sem bjóðum fram krafta okkar hér á Akureyri undir merkjum stjórnmálaflokka á landsvísu höfum einhverra annarra hagsmuna að gæta en að vinna fyrir okkar bæjarfélag. Það er að sjálfsögðu alrangt. Það er hlutverk allra kjörinna fulltrúa á Akureyri að standa fyrst og fremst vörð um hagsmuni bæjarfélagsins. Með því að tilheyra stjórnmálahreyfingu á landsvísu skapast aftur á móti ýmis tækifæri til þess að ræða og skýra hagsmuni bæjarfélagsins, sem er ekki síst mikilvægt þegar kemur að umræðu um málefni landsbyggðanna og sanngjarnrar skiptingar tekjustofna ríkis og sveitarfélaga.

Stöndum vörð um hagmuni Akureyrar

Tökum eldfimt dæmi um flugvöllinn í Vatnsmýrinni. Samfylkingin í Reykjavík hefur talið það vera hagsmuni borgarinnar að selja land flugvallarins. Samfylkingin á Akureyri hefur alfarið verið mótfallin því og talið brýnt að öryggi innanlandsflugs verði tryggt, með þeim hætti einum geti Reykjavík verið höfuðborg allra landsmanna. Til þess að taka af allan vafa þá yrði hlutverk mitt sem bæjarfulltrúi, nái ég kjöri, fyrst og fremst að standa vörð um hagsmuni Akureyrar. Því mun ég líkt og forverar mínir í bæjarstjórn á Akureyri berjast með kjafti og klóm fyrir því að flugvöllurinn fari hvergi, enda engir aðrir vænlegir kostir í stöðunni. Það er því langt í frá að fulltrúar Samfylkingarinnar hér á Akureyri séu beygðir undir eitthvað ægivald annars staðar. Stjórnmálaflokkar eru nefnilega ekki hópur fólks sem eru sammála um allt, heldur hópur fólks sem hefur sameinast um grundvallar hugmyndafræði.

Með jöfnuð að leiðarljósi

Stefna Samfylkingarinnar grundvallast á jöfnuði. Það endurspeglast til dæmis í áherslu á gjaldfrjáls námsgögn, hærri frístundastyrkjum og að við viljum ekki sjá einkavæðingu hvorki í skóla- né öldrunarþjónustunni. Við teljum að ávallt þurfi að taka ákvarðanir með það að leiðarljósi hvort að þær auki jöfnuð í samfélaginu eða þvert á móti auki enn á stéttaskiptingu, sem fyrir er allt of mikil. Stefna Samfylkingarinnar byggir einnig á umhverfis- og náttúruvernd, jafnrétti kynjanna, heilbrigðri samkeppni og mannréttindum, með áherslu á að allir hafi jöfn tækifæri til mannsæmandi lífs. Það ætti því aldrei að koma neinum á óvart fyrir hvað við stöndum.

Sama hvað þú gerir – ekki gera ekki neitt

Lýðræðið er í mínum huga hornsteinn samfélagsins, enda felur það í grunninn í sér að fólkið sjálft ræður en ekki fámennur hópur eða jafnvel einstaklingar. Að mínu mati eigum við öll að leggja okkar af mörkum til að þróa samfélagið okkar. Það er kannski ekki alltaf auðvelt, ekki alltaf einfalt og ekki alltaf skemmtilegt, en það  er mikilvægt. Þó að það sé ekki nema fyrir það eitt að þú hafir trú á því að við eigum að búa í lýðræðisríki, þá hvet ég þig kæri kjósandi til þess að kynna þér málin af kostgæfni, mæta á kjörstað þann 26.maí og hvetja vini og ættingja til þess að gera slíkt hið sama.

Látum hjartað ráða för.

 


Nýjast