Aðdáandabréf til Akureyrar

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson

Akureyri er alveg einstakur staður og ekki bara á íslenskan mælikvarða því bærinn stenst vel samanburð við aðlaðandi bæi annars staðar á Norðurlöndum. Í einstöku aðdráttarafli bæjarins og fólkinu sem hann byggir liggja gríðarleg tækifæri. Styrkleikar Akureyrar hafa hins vegar ekki verið virkjaðir sem skyldi undanfarin ár og tækifærin ekki nýtt.

Á unglingsárum las ég bækurnar „Landið þitt Ísland“ til að kynnast byggðum landsins. Sem aðdáandi Akureyrar og áhugamaður um sögu bæjarins las ég kaflann um um Akureyri af sérstökum áhuga. Mér er minnisstæð setningin „Akureyri er mesti iðnaðarbær landsins“. Bærinn sameinaði það að vera fallegur og um leið miðstöð flölþættrar framleiðslu og annarrar öflugrar atvinnustarfsemi. Það var alltaf sérstök og ánægjuleg upplifun að koma á Akureyri.

Á síðast liðnum tuttugu árum hefur Akureyringum fjölgað um rúmlega 20%. Hafnfirðingum hefur á sama tíma fjölgað um rúm 60%, Íbúum Reykjanesbæjar um rúm 70% og Kópavogsbúum um rúm 80. Eftir nokkrar vikur fellur Akureyri líklega úr því að vera fjórða fjölmennasta sveitarfélag landsins í fimmta sæti. Íbúafjölgun segir auðvitað ekki alla söguna en það sem veldur áhyggjum er að Akureyri hefur ekki vaxið í takt við landið hvað varðar verðmætasköpun og tekjur íbúanna. Ekki hefur verið byggt sem skyldi á hinum miklu kostum bæjarins. Það er hægt að byggja miklu meira á hinum sterka grunni sem bærinn býr að.

Akureyri hefur mikilvægu hlutverki að gegna ekki aðeins fyrir íbúa sveitarfélagsins heldur fyrir landið allt. Fyrir síðustu Alþingiskosningar kynnti Miðflokkurinn verkefnið „Ísland allt“. Það snerist um hvernig hægt væri að láta Ísland allt virka sem eina sterka heild. Verkefnið byggðist m.a. á áformum ríkisstjórnar áranna 2013-16 um að ráðast í umfangsmikla uppbyggingu um allt land þegar búið væri að ná þeim efnahagslega árangri sem orðinn er að veruleika. Akureyri leikur lykilhlutverki í þessari áætlun.

Ísland allt nýtir ýmisleg sem vel hefur reynst í byggðaeflingu erlendis. M.a. er litið til verkefnisins „Northern Powerhouse“ í Bretlandi sem snýst um að ná meira jafnvægi milli Lundúnasvæðisins og Norður Englands. Rétt eins og þéttbýlið frá Liverpool til Manchester skipti sköpum í þeim árangri sem verkefnið hefur skilað þurfa Akureyri og Eyjafjarðarsvæðið að mynda sterkt mótvægi við höfuðborgarsvæðið. Það gagnast landinu öllu. Slíkt kallar á umtalsverða fjárfestingu af hálfu ríkisins en ef takast á að nýta hin miklu tækifæri Akureyrar þarf bærinn dugmikla og sókndjarfa bæjarstjórn.

Stjórn bæjarins þarf að mótast af uppbyggingar- og sóknarhug. Þörf er á markvissri áætlun um eflingu atvinnulífs og getu til að fylgja slíkri áætlun eftir. Samhliða því þurfa bæjaryfirvöld að vera meðvituð um að árangurinn sem af því leiðir skili sér til allra bæjarbúa.

Mikilvæg forsenda þess að nýta sóknarfæri Akureyrar til fulls er sú að huga að því sem gerir bæinn einstakan og aðlaðandi. Þar komum við að skipulagsmálunum.

Grunnurinn sem Akureyri hefur á að byggja á því sviði er stórkostlegur. Sums staðar hafa glæsileg hús staðið hálfkláruð áratugum saman, m.a. tvær stórbyggingar sem mynda umgjörð um Ráðhústorgið. Fjölmörg hús má, með réttum hvötum, færa til fyrri glæsileika. Gamla apótekið í Innbænum er gott dæmi um slíkt en á Akureyri er fjöldi bygginga sem gætu orðið mikil bæjarprýði.

Nýframkvæmdir þurfa svo að vera til þess fallnar að styrkja sérkenni Akureyrar og auka enn aðdráttarafl bæjarins. Það á sérstaklega við í miðbænum. Miðvikudaginn 23. maí mun ég flytja erindi um hvernig Akureyrarbær getur best nýtt hin stórkostlegu sóknarfæri sín í skipulagsmálum. Ísland allt þarf á því að halda að hinir miklu kostir Akureyrar verði á ný grundvöllur uppbyggingar og framfara.

 


Nýjast