Að leyna tækifærum

Edward H. Huijbens og Sóley Björk Stefánsdóttir
Edward H. Huijbens og Sóley Björk Stefánsdóttir

Nokkrar umræður hafa sprottið vegna sölu Akureyrarbæjar á hlut sínum í nýsköpunar- og fjárfestingarsjóðnum Tækifæri til samvinnufélagsins KEA. Borið hefur á tortryggni þar sem virði hlutarins, sem seldur var á nafnvirði, er óljós þar sem salan fór ekki fram á opnum markaði. Fór hún fram í lokuðu ferli og færð í trúnaðarbók bæjarráðs, án þess að leyndinni hafi svo verið aflétt að ferli loknu.

Nú er svo að einhugur var í bæjarstjórn um forsendur sölunnar meðal allra flokka. Bæjarfulltrúar voru sammála um að Akureyrarbær ætti ekki að eiga fé í fjárfestingasjóði, allra síst sjóð sem tekur áhættu  í sínum fjárfestingum eins og nýsköpunarfjárfestingar eru. Að auki var einhugur um að ekki sé eðlilegt að bærinn eigi í gegnum slíkan sjóð hluta í fjölmiðlum á svæðinu.

Bæjarfulltrúar gengust einnig inn á að eðlilegt væri að færa tilboð KEA í trúnaðarbók, en allir eru þeir  sammála um að mistök hafi verið að aflétta ekki trúnaði af málinu og færa í opna fundargerð. Einnig hefur því verið lýst yfir að betra hefði verið að selja bréfin í opnu söluferli.

Það hefur þó ekki reynst nægilegt að bæjarráð hafi sent frá sér yfirlýsingu þar sem mistök eru játuð. Enn er mikil tortryggni vegna málsins í samfélaginu og aftur og ítrekað eru bæjarfulltrúar spurðir út í málið. En það er afar eðlilegt.

Það er nefninlega þannig að öll leynd skapar tortryggni. Ef við byggjum við opnari stjórnsýslu og meira gegnsæi, svo ekki sé nú talað um meira samráð og íbúalýðræði, þá gætum við öll lifað mun áhyggjulausara lífi. Íbúar, blaðamenn, pólitíkusar og embættismenn, við gætum öll treyst hvert öðru betur. Það yrði eflaust meira vesen og meiri vinna. Pólitíkusar og embættismenn þyrftu að birta meira af gögnum sem sýndu að ákvarðanir væru teknar á málefnalegum forsendum. Íbúar og fréttamenn þyrftu þá líka að lesa meira af gögnum. En það væri þessi virði. Það er nefninlega alveg agaleg orkusóun að vera fullur tortryggni, eða að óttast gagnrýni. Auðvitað eru og verða skipta skoðanir um allt, og auðvitað mun fólk taka með ólíkum hætti á rökræðu um mál bæjarins. Þessu eiga kjörnir fulltrúar ekki að kvíða, heldur fagna, sperra eyrun og reyna að greina hvað þær raddir sem hljóma eru í raun að segja þeim. Lýðræðið er í raun afar kaótískt kerfi, en rétt eins og hraustustu vistkerfi þessa heims þá nærist það á fjölbreytni og hreinum og beinum, kröftugum boðskiptum. Tækifærin sem í opinni stjórnsýslu og meira gagnsæi felast eru óendanleg, og spurning er aðeins um hver þorir að rækta þau.   

Það er hægt að gera svo miklu betur í þessum efnum og við í Vinstri grænum munum halda áfram að berjast fyrir og vinna að opinni og gagnsærri stjórnsýslu. Á endanum hljóta allir að sannfærast um að það er eina leiðin til að starfrækja nútíma samfélag og sú mikla meinsemd sem leyndarhyggjan er mun þurfa undan að láta.

-Edward H. Huijbens og Sóley Björk Stefánsdóttir, Vinstri græn, Akureyri


Nýjast