10 ár frá hruni

Ásgeir Ólafs
Ásgeir Ólafs

Ég las viðtal við nágranna minn. Nágranna mína kalla ég þá sem búa í sama bæjarfélagi og ég. Sá maður var rændur af bönkum í hruninu öllu því sem hann átti. En þegar ég las betur, þá missti hann bara húsið sitt. Hann missti hins vegar miklu meira og mikilvægara en hús. Til að komast að því þurfti ég að lesa alla fréttina.

Í dag vill hann ekki eiga neitt og telur sig vera frjálsari en hann hefur nokkurn tíma verið. Hann leiðbeinir börnum sínum betur og eys til þeirra úr brunni visku sinnar. Segir frá reynslu sinni í samskiptum við ofjarla í fjármálum sem nokkrir sitja bak við lás og slá í dag. Fyrir mér þá nær viska þessa manns svo miklu lengra og dýpra en það að kaupa eða leigja hús.

Við þurfum að læra að setja dauða hluti til hliðar við lífið. Þegar fyrirsögn einhvers við­tals segir: „Ég missti húsið mitt í hruninu“ og þegar ég les það í sömu frétt að sami aðili hafi misst konuna sína, skilið við hana, í kjölfar hrunsins, tel ég áherslur viðtalsins vera kolrangar. Fyrirsögnin á að vera önnur að mínu mati. „Ég missti konuna mína í hruninu.“ En slík fyrirsögn selur ekki þér lesandanum það sem þú vilt. Þér er alveg sama hvort hann missir konuna sína. Þú vilt heldur lesa þér til um hversu mikinn pening kauði tapaði í hruninu.

Þetta tel ég vera óheilbrigða nálgun á lífið og hvernig það virkar á allan mögulegan máta en staðfestir af sama skapi samfélagið sem ég bý í. Fyrir mér er samfélagið Ísland á leið í kolrangar áttir með vitlausum áherslum. Hér eru rökin mín. Hugsaðu þér einingar. Þetta hef ég sagt áður. Ef þú þarft 50 einingar til að lifa þínu lífi sem þú kýst. Svo er þarna úti samfélag sem krefst þess að vera viðurkenndur fyrir ekki minna en 200 einingar. Þannig þarft þú dýrari hús, tvo nýja bíla á heimilið. Þú þarft með þessu nýjan húsbíl. Fellihýsi er ekki samþykkt inn á 200 eininga heimili í
dag.

Krakkarnir neita að sofa í slíku hreysi. Þú þarft þetta allt til þess eins að vera viðurkenndur af samfélaginu sem veit ekki hver þú ert. Þú ert aðeins kennitala. Eitthvert númer. Þú átt þér ekki nafn en þú gerir hvað sem er til að sanna þig fyrir því. Krakkarnir gera óraunhæfar kröfur til foreldra sinna, en engar kröfur á sig sig sjálfa. Með tilkomu allra samfélagsmiðlanna sem þeir kjósa að nota og sem þeir hafa enga stjórn á. En af hverju að eyða tíma sínum í að vera samþykktur af einhverjum sem þekkir þig ekki?

Samfélagið Ísland vill ekki að við lifum eftir 50 einingum. Þeir hagnast lítið á því. Enginn tekur lán, enginn eyðir neinum peningum í óþarfa hluti af því að þeir eru svo hamingjusamir. 50 einingar = Minni útgjöld í alla staði. 200 einingar = Neysluhyggja. Það eru ekki peningaáhyggjur í Stubbalandi. Hér er þessu stýrt ofan í ykkur. Það eru önnur öfl sem ákveða hvernig ykkur á að líða. Samfélagið Ísland vill ekki að þér líði vel. Þeir segja það en vilja það alls ekki. Þannig græða þeir ekkert á þér. Skoðaðu bara fréttaveiturnar. Getum við keypt okkur hamingju fyrir 200 einingar? Getum við keypt okkur sálarró? Getum við keypt okkur samvisku? Getum við keypt framkvæmdarvilja og þorsta í að skara fram úr? Getum við keypt okkur jólaskap? Getum við keypt okkur ósviknar minningar úr æsku? Getum við keypt okkur það að hlakka til einhvers? Getum við keypt okkur meiri tíma með börnum okkar og maka?

Það besta í heimi er að vera elskað­ur af annarri manneskju. Getur þú keypt þér það út í næstu verslun? Góðan dag, hvað kostar hjá þér ást
frá annarri manneskju? Hmmm…við seljum ekki slík en ég veit hvað þig vantar. Ég á fullt af dauðum hlutum sem þú þarft ekki en þú verður mjög hamingjusamur fyrir vikið. Hið minnsta í nokkra klukkutíma. Má bjóða þér það? Já takk, frábært. Góðan dag, áttu eitthvað sem gerir mig virkilega hamingjusaman? Já já, þetta var að koma. Þetta er steindauður hlutur sem þú límir á veggi og gerir ekkert fyrir þig. Hann kostar reyndar helling en þú verður rosa hamingjusamur í nokkra klukkutíma. Þetta er í tísku. Já takk …ætli það ekki.

Þú gengur niðurlútur á milli verslana. Eyðir peningum. Tekur þetta á krítarkortið. Borgar seinna. „Góðæri,“ segja svo pólitíkusarnir sem við kjósum, þegar þeir líta á eyðslu þína síðasta ársfjórðung. Góðæri kalla þeir það. 200 eininga fólkið verður glatt við þá frétt og óttast minna hrun, þar til bólan springur. 50 eininga fólkið hristir hausinn á meðan. Með bankabókina sína fulla af peningum. Með engin lán á bakinu. Frjálst. Þeir sem ráða kalla það svo vonleysi, og hrinda slíkum hugsunum af stað í höfði 200 eininga fólksins, þegar nýjir bílar seljast ekki lengur. Þeir eyða því meira. Taka bílalán sem boðin eru á „betri“ kjörum til að auka efnahag þjóðar. Það eru engin góð kjör á lánum. Þú sparar þér ekki pening með að reyða fram pening.

En til að samfélag gangi upp í dag, þá þurfið þið að reyða fram umfram peninga til að leiðrétta það. Taka frekari lán. Þér er stýrt. Þú bara sérð það ekki og stolt þitt segir þér að samþykkja ekki þau rök heldur. Áfram heldur þú að umvefja þig þessum dauðu hlutum sem gera ekkert fyrir þig nema í nokkra klukkutíma eftir að mesti kauphitinn lækkar? Með þessu missir sál þín marks og þú finnur til einmanaleika á einhverjum tímapunkti. Allt þetta dót sem þú átt, gerir ekkert fyrir þig þegar þú virkilega þarft að því að halda.

Það fyllir ekki þetta skarð sem þig vantar að fylla. Þú stendur tómur að innan. Ferð á kvíðalyf og telur þig vera venjulegan. Þú hættir að bóna nýja bílinn. Nú er talað um að fræjum næsta hruns sé þegar sáð. Hverju rænir hrun okkur? Það rænir þig öllu sem þú ert búinn að slá lán fyrir. Sem eru hlutir sem þú átt ekki. Einhverjir aðrir eiga þá. Þeir taka allt til baka. Þá loks núllstillir þú þig og ferð að hugsa um heilsuna og þína nánustu. Af hverju ekki að byrja strax á því? Það yrði aldrei hrun ef flestir lifðu eftir 50 einungum og notuðu aðeins peningana sína sem þeir skaffa til að lifa sómasamlegu lífi. Leggja svo restina fyrir í eitthvað annað spennandi.

Fyrirtæki myndu dafna til lengri tíma litið. Leiguverð hækkaði ekki og vextir yrðu jafnari. Þú þyrftir ekki að eyða peningum til að finna haminjguna. Aðskilur þannig líf og hluti frá hvort öðru. Hrun hefur ekki vald til að ræna þig því sem gerir þig hamingjusaman. Hrun rænir þig dauðu hlutunum sem skipta þig engu máli en gera þig að fanga. Þeir ríku mega vel eyða sínu af því þeir eiga peninga fyrir því. En að slá lán til að ætla að vera eins og þeir eru kjánaleg mistök að framkvæma. Ef þú ákveður að ætla að reyna að tengja við þessi sálarlausu kvikindi þá þarf ekki hrun til þess að ert þú sért rændur á hverjum degi.

Þessir dauðu hlutir svíkja þig sí­endurtekið með því að vera alveg sama um þig. Það er hins vegar þitt að ráða hvort þú setjir líf þitt í hendur þeirra eða ekki. Mér þótti viðtalið við nágranna minn frelsandi á allan hátt og staðfestir það sem ég lifi eftir. Ég, hann og hitt 50 eininga fólkið erum í miklum minnihluta í þessu samfélagi.
­­
Við finnum aldrei til einmanaleika. Við erum umvafin einhverju allt öðru og mikilfengnara en póstnúmeri og nýjum jeppa. Já, og við finnum ekki fyrir fjármálahruni. Þú verður fyrst ríkur þegar þú áttar þig á þessu.

Góðar stundir.


Nýjast