Aðalskipulag Akureyrarbæjar samþykkt

Tryggvi Már Ingvarsson.
Tryggvi Már Ingvarsson.

Síðastliðinn þriðjudag samþykkti bæjarstjórn samhljóða tillögu skipulagsráðs um Aðalskipulag Akureyrarbæjar sem gilda á árin 2018-2030.

Aðalskipulag er eitt mikilvægasta verkfæri hvers sveitarfélags - því þar er sett fram stefna og ákvarðanir sveitarstjórnar um framtíðarnotkun lands og fyrirkomulag byggðar. Í aðalskipulagi er þannig sköpuð framtíðarsýn fyrir samfélagið, uppbyggingu þess og þróun til nálægrar framtíðar.

Aðalskipulag Akureyrar 2018-2030 er að miklu leyti byggt á grunni eldra skipulags - en með örfáum veigamiklum undantekningum sem varða fyrst og fremst stefnu um þróun byggðar. Þannig gerir aðalskipulagið ráð fyrir að uppbygging íbúðasvæða rúmist öll fyrir innan þéttingarsvæða og á byggingarsvæðum í norðurhluta bæjarins í stað þróunar til suðurs eins og eldra skipulag gerði ráð fyrir. Ástæða þessa er einföld. Uppbygging atvinnusvæða hefur síðastliðinn áratug einskorðast við Nesjahverfi í nágrenni Krossaness í norðurhluta bæjarins.

Með því að byggja upp íbúðahverfi í nálægð við Nesjahverfi í stað suður af Naustahverfi ásamt skynsamlegri þéttingu byggðar á öðrum stöðum í bænum getum við stytt ferðatíma milli vinnu og heimilis og aukið þannig við lífsgæði íbúa, nýtt innviði betur og bætt umhverfisgæði.

Fleira hefur þó kallað á endurskoðun skipulagins. Frá því að síðasta aðalskipulag tók gildi hafa Akureyri, Hrísey og Grímsey sameinast í eitt sveitarfélag án þess að skipulag svæðanna hafi verið samþætt. Ný skipulagsreglugerð sem tók gildi 2013 hefur breytt efnistökum aðalskipulags og framsetningu. Eins eru breyttar áherslur í dag í skipulagsmálum, með aukinni áherslu á betri nýtingu lands með tilliti til ýmissa þátta eins og nýtingu innviða, verndunar og sjálfbærrar þróunar. Loks hefur hægt á íbúafjölgun, ekki bara hér heldur á landinu öllu og aldurssamsetning er að breytast með hækkandi lífaldri. Hvort tveggja hefur mikil áhrif á bæjarfélagið í heild sinni. Áskorun nútímasamfélags er í auknum mæli að svara spurningunni um hvernig við getum tryggt umhverfi og þjónustu við aldraða og þannig viðhaldið lífsgæðum lengur með góðu skipulagi - svo við getum lifað lengur heilbrigðu, sjálfstæðu lífi á eigin heimili.

Aðalskipulag er lifandi skjal og skal taka breytingum ef forsendur breytast. Þannig voru um 40 minniháttar breytingar gerðar á Aðalskipulagi Akureyrarbæjar 2005-2018 á gildistíma þess. Nýkjörin sveitarstjórn þarf jafnframt að taka afstöðu til hvort endurskoða beri aðalskipulag við upphaf kjörtímabils. Það á að tryggja að aðalskipulag endurrómi alltaf stefnu sveitarstjórnar hverju sinni.

Við sem unnum að gerð aðalskipulagsins lítum ekki á það skipulag sem nú hefur verið samþykkt af bæjarstjórn sem endastöð - því er ekki ætlað að vera endirinn á ferli sem svo er stungið ofan í skúffu til að bíða næstu endurskoðunar. Við hugsum það sem upphafspunkt og að það verði í eilífri endurskoðun til að tryggja samkeppnishæfni samfélagsins sem við búum í. Þannig höfum við nú þegar keyrt þrjú verkefni af stað til endurskoðunar skipulagsins sem við vorum að samþykkja. Það eru: rammaskipulag fyrir útleigu gistirýma í hverfum bæjarins; rammaskipulag fyrir göngu-, hjóla- og reiðstíga sem á að skapa framtíðarsýn fyrir stígakerfi bæjarins; og loks rammaskipulag Síðuhverfis ofan Borgarbrautar sem á að leggja til nánari útfærslu þess nýja byggingarhverfis ásamt áfangaskiptingu uppbyggingar. Endurskoðunin er þegar hafin!

Þetta er vonandi bara byrjunin. Þannig er það er von okkar að aðalskipulag verði lifandi skjal og í auknu mæli notað sem stjórntæki bæjarins, til að samþætta ólíkar stefnur svo sem í umhverfis-, umferðar- eða skólamálum. Skilgreini þannig þau markmið og áherslur sem samfélagið sameinast um hverju sinni.

Heiðurinn á vinnslu Aðalskipulags Akureyrarbæjar 2018-2030 er fyrst og fremst dr. Bjarka Jóhannessonar, skipulagsstjóra, Önnu Bragadóttur, verkefnisstjóra skipulagsmála og annarra starfsmanna skipulagssviðs Akureyrarbæjar. Við mótun á stefnu og áherslu skipulagsins hefur jafnframt verið leitað í ríkara mæli til íbúa en áður hefur verið gert. Eins hefur verið tryggð aðkoma embættismanna, nefnda bæjarins og bæjarstjórnar á öllum stigum.

Skipulagsráð hefur frá upphafi verið hluti af skipulagsgerðinni, tekið afstöðu um stefnur og leiðir, og það er í hennar nafni sem skipulagið er sett fram og hefur nú verið samþykkt af bæjarstjórn.

-Tryggvi Már Ingvarsson, formaður skipulagsráðs Akureyrarbæjar


Nýjast