Að láta drauma rætast

Hólmfríður Benediktsdóttir skrifar um ástríðu sína fyrir skáldkonunni Huldu. Mynd/epe
Hólmfríður Benediktsdóttir skrifar um ástríðu sína fyrir skáldkonunni Huldu. Mynd/epe

Vorið 2004 fékk Tónlistarskóli Húsavíkur Sigurð Rúnar Jónsson (öðru nafni Didda fiðlu) til starfa í 3 daga. Á þessum dögum tók hann upp 3 geisladiska. „Allt brosir á Húsavík“ með Samkór Húsavíkur, söng Aðalsteins Júlíussonar tenór en hann var að ljúka námi hjá mér og svo „Við vatnið“ með Stúlknakór Húsavíkur. (Þetta var auðvitað bilun en gaman og einn draumur rættist eins og svo margir í starfi mínu við skólann). Ljóðið Við vatnið er eftir skáldkonuna Huldu, sungið við finnskt þjóðlag í útsetningu Sigfúsar Einarssonar tónskálds. Ég hef kunnað þetta ljóð frá því að ég var stelpuhnokki í kór hjá Sigurði Hallmarssyni og einnig sungum við krakkarnir Hver á sér fegra föðurland eftir Huldu.

2015 hætti ég störfum við TH og allt í einu var svo miklu meiri tími til að lesa . Ég fann í bókasafninu okkar bók Guðrúnar Bjartmarsdóttur „Ljóð og laust mál“ með ljóðum eftir Huldu og svo nokkrum smásögum. Ég hafði ekki hugmynd um að Hulda hafði skrifað meira en ljóð, þannig að upp fyrir mér laukst heimur smásagna og ævintýra (101 sögur og ævintýri) skáldsagan Dalafólk um hana Ísól ofurkonu,og svo öll ljóðin (7 bækur). Þá er barnabók hennar Bogga og búálfurinn í miklu uppáhaldi hjá mér. Alls hafa verið útgefnar 21 bók eftir Huldu. Sumar voru komnar í geymslu bókasafnsins.

Hulda hefur ekki verið „In“ hjá okkur Íslendingum. En er bara ekki kominn tími til að breyta því? Í það minnsta segir mitt heimafólk að ég sé komin með Hulduheilkenni þannig að nú hefur einn draumurinn í viðbót bankað á dyr.

Hús þingeyskra lista?

Hulda eða Unnur Benediktsdóttir Bjarklind fæddist í Láxárdalnum og var pabbi hennar þekkt persóna í öllum uppgangsmálum landsins. Um hann hefur Sveinn Skorri Höskuldsson skrifað langa og merkilega bók. En dóttirin hún Hulda mín á enga bók um sitt æviskeið.

Hún fæddist árið 1881 og árið 1981 var henni reistur veglegur minnisvarði við Auðnir, fæðingarbæ hennar og þar söng hópur söngkvenna úr Kvenfélagasambandi Suður-Þingeyinga lög við ljóð eftir Huldu. Þarna var kvennakórinn Lissy að hefja sitt merkilega starf en hann hét eftir söngkonunni Lissy sem bjó í Laxárdal og var þekkt og dáð fyrir sína frábæru söngrödd.

Hulda átti heima á Húsavík í meira en 30 ár. Það er nú eiginlega þess vegna sem mér finnst að við Húsvíkingar þyrftum að minnast hennar og það veglega. Hún átti lengst af heima í Formannshúsinu. Fyrir neðan Formannshúsið hefur myndast reitur og þar hafa bæjaryfirvöld ákveðið að minnast Huldu. Listakonan Ólöf Nordal mun skipuleggja ásamt Arnhildi Pálmadóttur arkitekt og garðyrkjufræðingi bæjarins þennan reit.

Þá er það blessað Formannshúsið sem kostar trilljónir. Við Húsvíkingar höfum ekkert hús til að bjóða lista- og fræðimönnum til dvalar um lengri eða skemmri tíma hér. Það er svooo tilvalið fyrir svona starfsemi og stofurnar niðri svooo flottar sem safn þingeyskra listamanna. Þar væri a.m.k. pláss fyrir myndina af Benedikt Jónssyni bókaverði en okkur tókst að gera bókhlöðuna hans sem stóð þar beint á móti ónýta. Og ekki má gleyma veflistaverkinu af Huldu sem kvenfélagskonur gerðu. Já, þeir eru dýrir draumar frú Hólmfríðar núna!

Huldulestur á laugardag

Í vetur er ég búin að heimsækja 2 bókaklúbba hér á Húsavík og hafa konurnar (fyrirgefið kallar eruð þið með bókaklúbba?) verið svo góðar að lesa allar smásögurnar hennar Huldu. Nú er búið að ákveða að hittast í Bókasafninu n.k. laugardag 9. júní kl. 11.00. Við ætlum að vera í horninu hægra megin. Í horninu vinstra megin er komið Hulduhorn, en þar hefur Bryndís sett afar huggulega upp æviágrip skáldkonunnar og lista yfir bækur hennar. Einnig eru allar bækur Huldu þarna á hillu. Enda þótt þessi fundur sé með lesurunum, þá er hann að sjálfsögðu opinn og væri ekki verra að sjá svona einn og einn karl.

Það er svo draumur minn að þessar smásögur sem konurnar velja komi út í 2 kiljum, ljóð Huldu í 2 kiljum, skáldæfisaga um Huldu og vonandi Dalafólkið, skáldsagan hennar. Ég hef fengið gott fólk með mér og vil ég nefna Ásgeir Hermann Steingrímsson, Þórdísi Eddu Jóhannesdóttur, Helgu Kvam, Jörund Guðmundsson, Sif Jóhannesdóttur og svo hana Bókasafns-Bryndísi sem er að gera svo ótrúlega flotta hluti. Hún hefur þurft að hlusta á skýjaborgirnar eins og t.d. að halda hér á Húsavík árið 2021 (140 ára árstíð) Hulduhátíð þar sem skrifum Huldu verða gerð skil af fræðimönnum, á tónleikum og kvæðakvöldum með ljóðum hennar og svo og svo og svo....

Hólmfríður Ben.


Nýjast