Á ég að borga brúsann?–Opið bréf til Hildu Jönu Gísladóttur

Einar Brynjólfsson.
Einar Brynjólfsson.

Ágæta Hilda Jana, formaður stjórnar Akureyrarstofu.

Þann 21. janúar sl. úrskurðaði Umboðsmaður Alþingis að Akureyrarbær hafi brotið gegn stjórnsýslulögum þegar ráðning í stöðu verkefnisstjóra hjá Akureyrarstofu var dregin til baka fyrir tæpu ári. Í áliti UA kemur m.a. fram að brotið hafi verið gegn ákvæði laganna um rannsóknarreglu, sbr. 10. gr. (að stjórnvald skuli sjá til þess að mál sé nægjanlega upplýst áður en ákvörðun er tekin í því), gegn ákvæði um andmælarétt, sbr. 13. gr. og gegn ákvæði um frestun máls, sbr. 18. gr.

Telja má nokkuð ljóst að málinu sé hvergi nærri lokið, enda beinir Umboðsmaður þeim tilmælum til Akureyrarbæjar að leitað verði „leiða til að rétta hlut“ umsækjandans sem á var brotið. Þau tilmæli er vart hægt að skilja á annan veg en að eðlilegt sé að greiða umsækjanda bætur fyrir misgjörðina.

Ég er áhugamaður um vandaða meðferð stjórnsýslu, sérstaklega þegar kemur að meðferð almannafjár. Af því tilefni langar mig til að beina eftirfarandi spurningum til þín.

  1. Álit UA er dagsett 21. janúar sl. Í fundargerðum stjórnar Akureyrarstofu, bæjarstjórnar og bæjarráðs má sjá að þetta álit hefur ekki enn verið rætt. Hverju sætir það?
  2. Hyggst Akureyrarbær leita sátta að fyrra bragði við umsækjandann sem á var brotið?
  3. Hvaða ráðstafanir verða gerðar á stjórnsýslu bæjarins til að fyrirbyggja að svona fúsk verði endurtekið?
  4. Í gögnum málsins kemur fram að deildarstjóri Akureyrarstofu hafi játað á sig handvömm í ráðningarferlinu. Verður deildarstjórinn látinn axla ábyrgð með einhverjum hætti og/eða aðrir sem að ráðningarferlinu komu?
  5. Mun stjórn Akureyrarstofu axla ábyrgð með einhverjum hætti, og þá hvernig?
  6. Mun einhver axla ábyrgð?
  7. Á ég að borga brúsann?

Með von um greinargóð svör,

-Einar Brynjólfsson, útsvarsgreiðandi og fyrrverandi þingmaður


Nýjast