90% íbúa bera mikið traust til SAk

Sjúkrahúsið á Akureyri nýtur mikils trausts á meðal íbúa á Norður-og Austurlandi.
Sjúkrahúsið á Akureyri nýtur mikils trausts á meðal íbúa á Norður-og Austurlandi.

Niðurstöður Gallup, þar sem íbúar á Norður- og Austurlandi voru spurðir um traust til Sjúkrahússins á Akureyri (SAk) og viðhorf til þjónustu þess, sýna að 90% íbúanna bera mikið traust til Sjúkrahússins á Akureyri og 91% þeirra sem höfðu nýtt sér þjónustuna sl. 12 mánuði voru ánægðir með hana. Er þetta sambærileg niðurstaða og fyrir ári síðan þegar sama könnun var lögð fyrir.

Þegar horft er til trausts stofnana sem Gallup mælir í þjóðarpúlsi sínum skorar einungis ein stofnun hærra, Landhelgisgæslan, sem mælist með 91%. Frá þessu greinir Bjarni Jónasson, forstjóri SAk, í pistli á heimasíðu sjúkrahússins. „Þetta er góður vitnisburður um það starf sem hér er unnið,“ segir Bjarni.

Fæðingum fjölgar um 3%

Árið var viðburðaríkt og þróun í starfseminni, segir í pistli Bjarna. Fæðingar voru 388 sem er fjölgun um 3% en á árinu fæddust 392 börn en 383 á fyrra ári. Skurðaðgerðum fjölgaði nokkuð. Sjúkrahúsið hefur tekið aukinn þátt í átaki stjórnvalda til að stytta biðtíma eftir völdum aðgerðum. Vega gerviliðaaðgerðir þar þyngst en þeim hefur fjölgað um 230 frá því átakið hófst. Komum á bráðamóttöku fækkaði um 3%. Sjúkraflug hélt áfram að aukast milli ára og var farið í 819 flug sem er aukning um 3% frá fyrra ári.

Læknir fór með í um 52% tilfella. Sjúkrahúsið hefur séð um læknisfræðileg mál sjúkraflugsins frá árinu 2002 en það ár voru sjúkraflug 278. Sjúkraflug hefur því sem næst þrefaldast á þessu tímabili, segir í pistli Bjarna Jónassonar.


Nýjast