300 manns á biðlista eftir endurhæfingu á Kristnesi

Kristnesspítali.
Kristnesspítali.

Alls eru 300 manns á biðlista eftir að komast að í endurhæfingu á Kristnesspítala. Illa gengur að saxa á listann og eru dæmi um að fólk þurfi að bíða í allt að tvö ár eftir að komast að. Ingvar Þóroddsson, forstöðulæknir á Kristnesi, segir biðlistann hafa verið langan undanfarin ár.

Undanfarna mánuði hefur verið óvenju mikið um bráðaveikindi þar sem að einstaklingar þarfnist endurhæfingar og mikil ásókn sé í almenna endurhæfingu og öldrunarendurhæfingu. Forgangsröð­un er í gildi sem ákvarðar hverjir komast inn hverju sinni.

„Þeir sem eru í mestri þörf ganga fyrir. Það er fólk sem lent hefur í bráðaveikindum, krabbameinssjúkir einstaklingar sem lokið hafa bráðameðferð, þeir sem þurfa á endurhæfingu að halda til að geta búið áfram heima hjá sér,einkum aldraðir og ungt fólk í vanda. Þetta þýðir að aðrir geta þurft að bíða ansi lengi,“ segir Ingvar og bætir við: „Ef við fengum engar nýjar beiðnir værum við um eitt ár að vinna upp biðlistann.“

Árið 2017 voru 296 einstaklingar í endurhæfingu í Kristnesi en fjöldi beiðni var 429, sem er sami beiðnafjöldi og árið á undan. Árið 2015 voru 360 beiðnir og fengu 256 pláss í endurhæfingu. „Eins og sést á þessum tölum er beiðnafjöldinn töluvert hærri en sjá fjöldi einstaklinga sem kemst inn,“ segir Ingvar. Byggja þyrfti nýtt þjálfunarrými Ingvar segir að æskilegt væri að geta sinnt fleirum.

„Því miður þá er þetta staðan á landinu þegar kemur að endurhæfingu og það er slæmt að biðtíminn sé þetta langur. Ef biðlistinn á Kristnes væri helmingi styttri myndi það heita ásættanlegt. Það er eðlilegt að það sé einhver listi.“ Þeir sem eru í mestum forgangi þurfa yfirleitt ekki að bíða lengur en í viku, kannski tvær.

„En þeir sem eru ekki í forgangshóp get þurft að bíða 1-2 ár eftir að komast að. Og sumir á biðlista koma aldrei þar sem aðstæður breytast eða það sættir sig við að lifa með sinni stöðu.“

Spurður hvort meira fjármagn vanti á spítalann til að koma fleirum að segir Ingvar að núverandi húsnæði anni ekki fleiri sjúklingum. „Ef við ætluðum að auka starfsemina þyrfti að byrja á því að byggja nýtt þjálfunarrými því við nýtum það alveg í botn sem fyrir er.“


Nýjast