23 smitaðir á Akureyri

Smitum af Covid-19 fer fjölgandi á Akureyri.
Smitum af Covid-19 fer fjölgandi á Akureyri.
Tuttugu og þrír eru smitaðir af kórónuveirunni á Akureyri. Yfirlæknir heilsugæslunnar þar segir greinilega fjölgun smita milli vikna. Tveir hafa verið lagðir inn á sjúkrahúsið á Akureyri vegna veirunnar en eru útskrifaðir. Frá þessu er greint á vef Rúv. Smitum hefur fjölgað töluvert frá því í gær þegar 22 voru smitaðir á öllu Norðurlandi eystra.
 
Jón Torfi Halldórsson yfirlæknir heilsugæslunnar á Akureyri segir í samtali við Rúv að 256 sýni hafi verið tekin á stöðinni, 22 af þeim hafa verið jákvæð eða 8,6%. Hann segir 36% smitaðra hafa verið í sóttkví við greiningu. Tvær vikur eru frá fyrsta smiti á Akureyri og Jón Torfi segir greinilegt að smitum fjölgar milli vikna. Sýnataka hafi líka farið stigvaxandi, nú séu að jafnaði tekin 20-40 sýni á dag sem sé mikið miðað við höfðatölu, þó sýnin séu færri en í Reykjavík.
 
Hann segir ekki ástæðu til að ætla að smit séu útbreidd í bænum en það sé alveg ljóst að ekki sé búið að finna alla smitaða, því gildi að fara að ráðleggingum sóttvarnalæknis. Nemendur og starfsfólk Hlíðarskóla hefur verið sett í sóttkví eftir að starfsmaður greindist en samkvæmt upplýsingum frá Akureyrarbæ er það eini skólinn sem hefur verið lokað.  Tveir hafa verið lagðir inn á sjúkrahúsið á Akureyri vegna veirunnar en báðir eru útskrifaðir. Einn er inniliggjandi núna á meðan beðið er eftir niðurstöðum úr sýnatöku.

Nýjast