Er Akureyri að búa til kynslóð fólks sem fær lungnakrabbamein?

Yvonne
Höller
Yvonne Höller

Svifryk í andrúmslofti á Akureyri fer reglulega yfir heilsuverndarmörk á veturna þegar margir bílar eru búnir nagladekkjum. Gunnar Guðmundsson, læknir við Lungnadeild Landspítala, hefur sagt að hæstu svifryksgildi á Íslandi mælist almennt á Akureyri. Svifryk veldur breytingum á erfðaefni sem síðar getur framkallað lungnakrabbamein.

Þar að auki eykur það einnig tíðni ofnæmis, astmasjúkdóma, miðeyrnabólgu og langvinnrar lungnateppu. Rannsóknir hafa sýnt að svifryk getur haft neikvæð áhrif á þroskun taugakerfis barna og vísbendingar eru um samband milli svifryks og ADHD ein kenna hjá börnum. Svo virðist sem svifryk örvi taugaboð og rannsóknir gefa til kynna að bæði börn og eldri einstaklingar sem verða fyrir loftmengun sýni merki um vanvirkni í heilastarfsemi. Afleiðingar vanvirkni í heila geta birst í heilablóðfalli og skemmdum á æðum í heila. Þá hafa rannsóknir einnig sýnt fram á samband milli svifryks og kransæðasjúkdóma og hjartadreps. Svifryk berst til lungnanna, vegna þess að agnir sem eru minni en 10μm að þvermáli (kallaðar PM10) sleppa í gegnum náttúrulegar síur okkar sem eru í nefi og efri öndunarvegi.

Þegar þessar fíngerðu agnir ná að berast niður í lungun eru þær yfirleitt þar í langan tíma vegna þess að lungun eru ekki fær um að hreinsa þær í burtu sjálf. Enn fíngerðari agnir, PM2,5 (2,5 um í þvermál) geta líka borist til lungna og eru taldar enn hættulegri þar sem þær komast enn neðar í lungun. Svona agnir hafa fundist í ófæddum börnum þungaðra kvenna. Rannsóknir hafa sýnt að styrkur bæði PM10 og PM2,5 agna í andrúmslofti hefur aukist hratt á undanförnum árum í iðnvæddum ríkjum. Rannsóknir hafa enn fremur sýnt að þegar styrkur PM10 agna fer upp fyrir 10μg / m3 fjölgar sjúkrahússinnlögnum vegna öndunarfæraeinkenna um 0,5-5,7% og dánartíðni eykst um 0,2-1,6%.

Þrátt fyrir þessar niðurstöður gefur WHO (Alþjóða heilbrigðisstofnunin) út fyrirmæli um að ársmeðaltal PH10 agna fari ekki upp fyrir 20μg /m3 og sólarhringsmeðaltal fari ekki upp fyrir 50 μg /m3. Hvað PM2,5 agnir varðar, þá liggja WHOmörkin í 10 μg /m3 sem árlegt meðaltal og 25 μg /m3 sem sólarhringsmeðaltal. Hér á Íslandi eru heilsuverndarmörk (ársgildi) PM10 40μg /m3 og 20 μg /m3 fyrir PM2,5. Þessi mörk liggja vissulega innan þeirra marka sem Alþjóða heilbrigðisstofnunin setur en í tilmælum þeirra kemur líka fram að sólahringsstyrkur svifryks ætti ekki að fara yfir heilsuverndarmörkin oftar en 7 sinnum á ári. Og þar erum við Íslendingar í vanda því gögn sýna að slíkt gerðist t.d. í 39 skipti á Akureyri árið 2017. Í skýrslu Umhverfisstofnunar um loftgæði kemur fram að árið 2017 mældist ársmeðaltalsstyrkur PM10 24 μg /m3 á Akureyri og hæsta sólarhringsmeðaltal var 191 μg /m3. Há svifryksgildi á Akureyri má væntanlega rekja til nokkurra þátta.

Fyrst ber að nefna notkun nagladekkja á bílum og svo losun á litlum ögnum frá vélum bíla. Gamlir bílar losa margir hverjir talsvert magn af svifryki út í andrúmsloftið og slæmar venjur, eins og að hita upp bíla fyrir notkun, ýta undir losun á svifryki. Gömul díselvél í lausagangi framleiðir t.d. um 300 μg / m3. En í hverju liggur lausnin? Felst hún ekki einmitt í því að samfélagið taki upp umhverfisvænni sam göngumáta, hvíli bílana sína og komi sér sem mest milli staða á umhverfisvænni hátt? Hér á Akureyri er frítt í strætó og stöðugt er unnið að endurbótum á hjóla- og göngustígakerfi bæjarins. Það ætti að vera sameiginlegt kappsmál okkar allra sem búum á Akureyri að vinna að því að minnka svifryksmengun í bænum okkar með því að draga úr óumhverfisvænum akstri. Þannig fáum við hreinna andrúmsloft fyrir börnin okkar og minnkum líkur á að þrói síðar á lífsleiðinni með sér bæði astma og ofnæmi…

Lausnin á vandanum er að banna nagladekk, hafa strangari reglur um losun leyfða af bílum. Margir gamlir bílar losa mikið svifryk og ýta í raun einnig undir þann slæma vana margra að hita upp bíla sína með því að láta þá ganga í nokkrar mínútur áður en ekið er af stað. Gömul díselvél í lausagangi framleiðir 300 μg / m3 – börn sem ganga í skóla þurfa oft að ganga framhjá bílum í lausagangi vegna þess að foreldrar og aðrir fullorðnir keyra til vinnu, engin furða að börnin þjáist af astma og ofnæmi. Langtíma útsetning af auknu magni svifryks hefur svipuð áhrif og sígarettureykingar. WHO telur svifryk vera fyrstu gráðu krabbameinsvaldandi efni. Innan Evrópusambandsins deyja meira en 400.000 manns á hverju ári vegna svifryks, aðallega vegna lungnakrabbameins. Tíminn mun sýna hvort Coronaveiran getur bætt þetta sorglega met. Höfundur er dósent við Háskólann á Akureyri


Nýjast