VMA tekur þátt í Nordplusverkefni um margbreytileikann

Þátttakendur í verkefninu í VMA í gær. Mynd: VMA
Þátttakendur í verkefninu í VMA í gær. Mynd: VMA

Verkmenntaskólinn á Akureyri (VMA) tekur þátt í áhugaverðu verkefni um margbreytileika samfélaga fyrir Íslands hönd sem styrkt er af Nordplus.

Nordplus er menntaáætlun Norrænu ráðherranefndarinnar. Markmið áætlunarinnar er að efla og þróa norræna samvinnu í menntamálum á Norðurlöndum og Eystrasaltslöndum, styðja við norræn tungumál og menningu og stuðla að sameiginlegum menningarskilningi landanna.

 Auk Íslands eru það Svíþjóð, Danmörk og Finnland ásamt fulltrúum frá Eistlandi og Litháen sem taka þátt í verkefninu. Verkefnið hefur yfirskriftina: „Promote tolerance-celebrate diversity“ sem gæti útlagst á íslensku sem: „Stuðlum að umburðarlyndi – Fögnum margbreytileikanum“. Þar er fjallað er um ýmsar hliðar margbreytileika samfélagsins í þeim löndum sem taka þátt í verkefninu.

Þátttakendur, bæði nemendur og kennarar  munu hittast í öllum löndunum sex í vetur og stendur fyrsti samráðsfundurinn eða ráðstefnan nú yfir í VMA. „Hópurinn kom saman í VMA í gær, í dag fara hinir erlendu gestir í skoðunarferð austur að Goðafossi og í Mývatnssveit og á morgun hittast þátttakendurnir aftur í VMA og ljúka þessum fyrsta hluta verkefnisins,“ segir á heimasíðu VMA.

Á hverri ráðstefnu verða þrír nemendur frá hverju landi, auk kennara. Að sögn Katrínar Harðardóttur kennara í VMA liggur fyrir að í vetur fara nemendur af viðskipta- og hagfræðibraut í fimm ferðir út fyrir landssteinana, til þeirra fimm landa sem taka þátt. Átján nemendur koma til með að taka þátt í verkefninu fyrir hönd VMA.

Í umfjöllunarefni hvers lands er ákveðið þema. Að þessu sinni er fjallað um kynhneigð fólks frá ýmsum hliðum undir yfirskriftinni „Gender and sexuality in society,“ eða „Kyngervi og kynverund í samfélagi“. Sigrún Sveinbjörnsdóttir, sálfræðingur og transmaðurinn Henrý Steinn, nemandi í VMA fluttu í gær áhugaverð erindi um þessi málefni.

 


Athugasemdir

Nýjast