Vilja framlengja leigusamninga við smábátasjómenn

Verbúðirnar á Hafnarstétt. Mynd: Heiðar Kristjánsson
Verbúðirnar á Hafnarstétt. Mynd: Heiðar Kristjánsson

Eins og sagt var frá á Vikudegi.is fyrir skemmstu fengu smábátasjómenn sem leigt hafa aðstöðu á neðri hæð verbúðana við Hafnarstétt bréf frá sveitarfélaginu Norðurþingi þar sem þeim var sagt upp leigusamningi en Norðurþing er eigandi verbúðanna.

Rætt var við Þórð Birgisson einn smábátasjómanna sem er með aðstöðu á neðri hæð verbúðanna. Hann sagðist uggandi yfir stöðunni og kallaði eftir skjótum svörum um það hvort leigusamningar yrðu endurnýjaðir eða ekki.

Málið hefur nú verið tekið fyrir hjá hafnanefnd Norðurþings og leggur nefndin til við sveitastjórn að gerður verði eignaskiptasamningur fyrir efri hæð verbúðannna og þær seldar í fjórum einingum. Þá leggur nefndin jafnframt fram að stofnað verði húsfélag að lokinni sölu.

Hafnanefnd leggur til að ekki verði gerðar breytingar á fyrirkomulagi neðri hæðar að svo stöddu eins og segir í fundargerð. Þá var samþykkt á fundi nefndarinna að framlengja leigusamninga á neðri hæð til eins árs frá og með næstu áramótum.

Málið var tekið fyrir á fundi sveitarstjórnar Norðurþings í vikunni þar sem samþykkt var samhljóma að fresta afgreiðslu málsins til næsta fundar.


Athugasemdir

Nýjast