Við þurfum að ræða um atvinnumál

Sjálfstæðisflokkurinn var látlaust við völd frá árinu 1991 til ársbyrjunar 2009. Fyrst í fjögur ár með Alþýðuflokknum, síðan tólf ár með Framsóknarflokknum og svo með Samfylkingunni í tæp tvö ár fyrir Hrun. Þetta nærri átján ára samfellda tímabil Sjálfstæðisflokksins í ríkisstjórn reyndist okkur Íslendingum dýrt. Helst þó okkur sem búum utan Reykjavíkursvæðisins.

Á þessum tíma fækkaði íbúum á því svæði sem nú er Norðurþing gríðarlega. Atvinnumöguleikum fækkaði. Opinberum störfum fækkaði og þjónusta við íbúa var stórskert.

Kjördæmi forystufólks

NA-kjördæmi hefur lengi verið vel mannað valdamiklum stjórnmálamönnum. Formenn stjórnmálaflokka hafa oftar en ekki verið þingmenn NA-kjördæmis. Það heyrir til undantekninga ef ekki eru einn eða fleiri þingmenn kjördæmisins ráðherrar hverju sinni. Á yfirstandandi kjörtímabili koma tveir formenn stjórnmálaflokka á Alþingi úr röðum þingmanna kjördæmisins. Tveir þingmenn eiga eða hafa átt sæti í ríkisstjórninni sem nú er að hrökklast frá völdum, þar af annar verið forsætisráðherra mestan hluta tímabilsins. Af tíu þingmönnum kjördæmisins koma sex úr röðum stjórnarflokkanna. En það virðist engu breyta fyrir kjördæmið frekar en áður þegar þessir tveir flokkar hafa verið við völd.

Aðgerðarleysi er afstaða

Rétt eins og á fyrra tímabili hægriflokkanna tveggja í ríkisstjórn hafa þeir ekki sinnt atvinnumálum í kjördæminu. Þessir flokkar hafa látið það eiga sig líkt og áður að sinna eðlilegri uppbyggingu innviða til að liðka til fyrir nýjum atvinnugreinum. Þannig hefur aðgerðarleysi þeirra í raun hindrað atvinnustarfsemi á svæðinu og þvælst fyrir þeim sem hafa reynt að skapa störf. Skýrustu dæmin um það er driftarleysi þingmanna stjórnarflokkanna í samgöngumálum og uppbyggingu innviða í tengslum við ferðaþjónustu. Það er ekki einleikið hvað þingmenn stjórnarflokkanna í kjördæminu hafa sinnt kjördæminu illa að þessu leyti.

Viðsnúningur

Eftir áratuga sinnuleysi stjórnvalda, lengst af undir stjórn hægriflokkanna tveggja, Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks, tókst loksins að snúa við blaðinu á síðasta kjörtímabili. Það er athyglisvert að allar stórframkvæmdir í kjördæminu í samgöngumálum voru ýmist hafnar eða ákveðnar af fyrri ríkisstjórn. Langþráð atvinnuuppbygging á svæðinu sem loksins er hafin má þakka samstarfi heimamanna og ríkisstjórnar Vinstri grænna á síðasta kjörtímabili.

Það hefur orðið viðsnúningur í atvinnumálum í Norðurþingi á kjörtímabili vinstristjórnarinnar og sést best á því að oftast þarf ekki meira en pólitískan vilja til góðra verka.

Björn Valur Gíslason. varaformaður Vinstri grænna. 


Athugasemdir

Nýjast