Tími til að vekja kallinn í brúnni

Pistlahöfundur er forfallinn sykurfíkill. Mynd: HK
Pistlahöfundur er forfallinn sykurfíkill. Mynd: HK

Ég er einn þeirra Íslendinga sem borða mikinn sykur. Cheerios er ég farinn að éta í laumi fyrir konunni minni af því að hún skammar mig alltaf fyrir að ausa sykri út á það. Ég bara skil ekki hvernig nokkur maður getur látið í sig Cheerios án þessa að strá að minnsta kosti matskeið af sykri yfir það. Ég meina - annars er alveg eins gott að naga bara kassann utan af því.

Þessi afskiptasemi í konunni minni fer alveg óstjórnlega í taugarnar á mér. Það er ekki eins og ég sé orðinn eins og skip í laginu. Ég geng enn í slimfit buxum og er í alveg hreint bærilegu formi þrátt fyrir hóflega hreyfingu. Samt nuddar hún í mér í hvert sinn sem ég teygi mig í sykursekkinn. En ef ég er hreinskilinn við sjálfan mig þá blasir það við hversvegna þetta nöldur fer svona í mig. Ég veit að hún hefur rétt fyrir sér. Þó ég sé við góða heilsu í dag og líði vel, þá er alls ekki víst að svo verði eftir tíu ár ef ég tek mig ekki á. Svo er ég fíkill og fíklar eru ekkert hrifnir af því að verið sé að setja út á neyslu þeirra. Konan mín er líka hjúkrunarfræðingur og hún veit alls konar.

Það má alveg fljóta með að ég spila í lottóinu, næstum í hverri viku eingöngu til þess að viðhalda draumnum um að komast einhverntíma til tannlæknis. Það þarf að leiðrétta ýmislegt í tanngarðinum. Vonandi fæ ég einhverntíma þá leiðréttingu.

Það er ekki aðeins heilsa mín sem er í húfi þegar kemur að matarvenjum mínum og ósiðum. Ég á tvo litla stráka sem eru komnir á bragðið og ég þarf að sýna betra fordæmi. Það er alveg ástæðulaust að þeir komist að því að Cheerios sé óætt ef maður hylur það ekki með sykri.

Þetta helvíti er að drepa okkur

Lífstílssjúkdómar er hugtak sem maður heyrir sí og æ. Þarna er verið að tala um sjúkdóma sem orsakast af breyttum venjum fólks í nútímasamfélögum. Klassísku atriðin eru: óhollt mataræði, ofát, reykingar, streita og hreyfingarleysi.  Áunnir sjúkdómar af völdum þessara þátta eru t.d. hjartasjúkdómar, sykursýki II (insúlínóháð) og þunglyndi (t.d. vegna streitu). Fyrir utan það að kosta heilbrigðiskerfið gríðarlega fjármuni og draga úr þjóðarframleiðslu (vegna vinnutaps) þá draga þessir sjúkdómar verulega úr lífsgæðum þeirra sem fyrir þeim verða og styttir ævilengd þeirra. Og ekki má gleyma óhamingjunni sem þessir sjúkdómar skapa. Hamingja er þrátt fyrir allt mikilvægasti stuðullinn þegar kemur að því að mæla velsæld, hvað sem kapítalistarnir segja.

Í norrænni könnun á mataræði og RÚV fjallaði um kom fram að Íslendingar eru feitastir Norðurlandabúa. Íslendingar neyta meira en hinar Norðurlandaþjóðirnar af sykruðum „matvælum“ eins og súkkulaði, sælgæti, kökum og gosdrykkjum. Jafnframt kemur fram að við borðum minna af hollum mat eins og ávöxtum, grænmeti og heilkornabrauði.

Þá eyða Íslendingar um helmingi minna en aðrar Evrópuþjóðir í forvarnir á sama tíma og um 80 prósent af útgjöldum heilbrigðismála fara í að takast á við lífstílstengda sjúkdóma.

Vekjum kallinn í brúnni

Ef þjóðarskútan steytir sífellt á skerjum er lausnin ekki fólgin í því að ráða her manna á lágum kjörum til þess að vinna á vöktum og í akkorði við að ausa dallinn og sjóða í götin. Nei við vekjum kallinn í brúnni, nú eða rekum hann.

Sökkvandi skip

Þessa myndlíkingu er ég í þessu tilfelli að máta við reksturinn á helbrigðiskerfinu okkar en hana mætti vissulega nota víðar. Heibrigðisstarfsfólk hefur engan vegin undan við að sjóða í þessi göt. Síðustu Alþingiskosningar snerust að verulegu leyti um það að gríðarlegt fjármagn skortir til að gera upp skipið, nú eða kaupa nýtt. Ég held að flestir eða allir flokkar hafi lofað að ausa peningum í götótt heibrigðiskerfið.

Það er svo með ólíkindum að margir þeirra sem við treystum og borgum fyrir að taka ákvarðanir fyrir okkur eru eins og anal-strútar. Í hvert sinn sem þeir fá inn á borð til sín mikilvæg mál til úrlausnar þá stinga þeir hausnum á kaf upp í rassgatið á sér. Ég get sagt með nokkurri vissu að lausnin á lýðheilsuvanda íslensku þjóðarinnar er ekki að finna í ristlinum ykkar.

Fækkum sjúklingum

Ég er ekki að segja að það eigi ekki að ausa peningum í heilbrigðiskerfið eða að mótmæla því að það sé að hruni komið. Ég er að segja að ef hlúð hefði verið að því og fé varið í ríkari mæli til forvarna þá væri staðan ekki svona slæm. Nú verður að fara lyfta grettistaki og minnka álag á heilbrigðiskerfið með því að fækka sjúklingum. Nýr Landsspítali er fljótur að verða of lítill ef heilsu okkar heldur áfram að hraka á  sama hraða. Það er kominn tími til að ráðamenn taki hausinn út úr rassgatinu á sér og fari að hugsa lengra en nefið nær.

Dæmin sýna að forvirkar aðgerðir virka til að draga úr neyslu. Ég get nefnt neyslu á tóbaki sem hefur dregist töluvert saman, þar helst í hendur fræðsla og neyslustýring stjórnvalda í gegnum skattlagningu og aðgerðir eins og að gera tóbak ósýnilegt í verslunum. Þá eru auglýsingar á tóbaki bannaðar og engum dettur í hug að setja neitt út á það.

Mantran endurtekin

Þegar hins vegar kemur að gosdrykkjum og sælgæti þá virðist vera einhver feimni í gangi gagnvart neyslustýringu. Mantran endurtekin um að ríkið eigi ekki að vera skipta sér of mikið af neyslu almennings, það er jú árás á einstaklingsfrelsið. Almenningur er fullfær um það að taka ábyrgð á sinni neyslu sjálfur, ekki satt? Ég er ekki sáttur við slíka nálgun. Ég lít ekki þannig á málið að skynsamlegar reglur um markaðssetningu og skattlagning á sykruð mætvæli dragi úr lífsgæðum mínum eða skerði einstaklingsfrelsi mitt. Ég er alveg jafn hammigjusamur þó ég þurfi að fara í ríkið til að verða mér úti um bjór. Ef mér dytti í hug að kaupa mér tóbak þá veit ég hvar ég get nálgast það þó að það öskri ekki á mig við kassann í kaupfélaginu.

Siðlaus markaðssetning

Markaðssetning á sælgæti finnst mér vera með því siðlausasta sem ég þekki. Það er gert eins áberandi og mögulegt er í verslunum. Aðlaðandi nammibörum komið fyrir allsstaðar og auðvitað miðast þessi framsetning fyrst og fremst að því að ná athygli barnanna okkar. Hvernig stendur á því að samfélagið samþykkir að tóbak þurfi að fela í verslunum og prenta á það stórar aðvaranir um skaðsemi þess; svo er sleikipinnum stillt upp við hlið greiðsluposanna í stórmörkuðum þar sem ég á mér engrar undankomu auðið með litlu ofvirku strákana mína.

Nammiland

Ég veit ósköp vel að það er á ábyrgð mína sem foreldris hvort ég láti undan öskrum barnanna minna og kaupi helvítis sleikibrjóstsykurinn. Og það skal tekið fram að prinsippsins vegna hef ég aldrei keypt sleikipinna í matvöruverlsun. Það er hins vegar augljóst að þarna miðar markaðssetningin að því að koma neytandanum í aðstæður þar sem frelsi hans er skert til að neita sér um þá voru sem verið er að selja. Þið getið básúnað að vild um að skynsamleg neyslustýring sé árás á einstaklingsfrelsið en þetta er siðlaust.

Og ekki halda það eitt augnablik að það sé verið að hugsa um valfrelsi okkar neytenda þegar stjórnvöld draga lappirnar í að koma á laggirnar skynsamlegri neyslustýringu. Það er verið að verja frelsi framleiðenda til að framleiða ofan í okkur rusl

Löngunin í meira

Vörur sem aðeins fullorðnir mega kaupa eru settar í sérverslanir eða komið fyrir í læstum skúffum en hvaða 10 ára krakki sem er getur skomberað niður í búð og ausið úr nammibarnum fyrir 500 þúsund kall ef honum sýnist. Það er eitthvað bogið við þetta.

Ég ætla ekki að halda því fram að hlaupbangsar séu jafn skaðlegir og filterslaus Camel, en þeir eru skaðlegir engu að síður. Og sykur er fíkniefni. Í grófum dráttum gerir sykur nákvæmleg það sama fyrir okkur og kókaín. Bæði efnin fylla okkur skammvinnri sælutilfinningu (og eru örvandi), byggja upp löngun í meira og skaða okkur til lengri tíma ef neyslu er haldið áfram.

Ég veit ekki afhverju forvirkum aðgerðum er ekki beitt í ríkari mæli gegn lífstílstengdum sjúkdómum á Íslandi. Skortur á fé tek ég ekki sem gilda ástæðu, því til lengri tíma litið ávaxtar hver króna sem látin er renna í forvarnarstarf sig margfalt. Ástæðurnar eru líklega þær að árangur forvarna kemur ekki strax fram.

Enn opinberast skammsýni Íslendinga. Það hlýtur að vera verðugt verkefni fyrir fyrir Kára Stefánsson að finna þetta skammsýnisgen og rannska það nánar.

 Höfundur er sykurfíkill í hægum bata


Athugasemdir

Nýjast