Þunglyndið tekið út fyrir fram

Stuðningsmenn Liverpool vita ekkert verra en að tapa fyrir Manchester United. Mynd: Baldur Starri.
Stuðningsmenn Liverpool vita ekkert verra en að tapa fyrir Manchester United. Mynd: Baldur Starri.

Árið 2017 fer ömurlega af stað. Ég hef verið þungur í lund bróðurpart þessara tveggja vikna sem liðnar eru af árinu. Nístingskuldinn, endalaust myrkrið og götóttur hljóðkúturinn undir bílnum mínum hefur samt ekkert með þunglyndi mitt að gera. Nýgangsett PanHam ríkisstjórn Bjarna „teflon“ Benediktssonar hefur reyndar ekki létt á áhyggjufullu sinni mínu en uppruna drunga míns er heldur ekki að finna þar.

Ég held með Liverpool, því fornfræga fótboltaliði frá samnefndri hafnarborg á Englandi og ég valdi mér það sjálfur. Það var reynar fyrir margt löngu þegar félagið var með alla helstu titla sem enskt knattspyrnulið getur unnið í fastri áskrift. Síðan eru liðin mörg ár og ég get sagt ykkur að þetta hlutskipti í lífinu að vera Liverpool-aðdáandi er líklega það erfiðasta sem nokkurri manneskju gæti dottið í hug að velja sér sjálf, fullkomlega ónauðbeygð.

Þessi pistill fer þannig af stað að halda mætti að ég hefði allt á hornum mér og sé í þann mund að fara úthúða mínu elskaða félagi og finna því allt til foráttu. Svo er nú aldeilis ekki raunin enda hefur þetta blessaða félag gefið mér fleiri gleðistundir en flest annað í tilveru minni. Það fylgir því bara svo mikill ólgusjór að vera stuðningsmaður Liverpool og stundum verður maður hreinlega sjóveikur. Það verður að viðurkennast að þetta frábæra félag hefur alltof oft verið í þeirri stöðu undanfarin ár að þurfa að rífa sig upp úr djúpum öldudal.

Staðan er reyndar með eindæmum góð í dag. Liðið situr í 2. sæti í ensku úrvalsdeildinni og bjartsýnustu Liverpoolmenn telja jafnvel að það geti farið alla leið í ár og unnið deild hinna bestu í fyrsta sinn í mjög langan tíma. Þá skal það strax tekið fram að ég er ekki einn þessara bjarsýnu manna, ég er í fullri hreinskilni svo svartsýnn gagnvart meistaratitli í ár að Stevie Wonder sér í öllum regnbogans litum við hliðina á mér.

Þetta er þungarokk

Það er búið að vera mestmegnis gaman að halda með Liverpool síðan þýski meistarasnillingurinn og kyntröllið Jurgen Klopp tók við liðinu á miðju síðasta tímabili. Stórkostlegur sóknarbolti, leifturpressa og mörk, mörk, mörk hafa einkennt leik liðsins undir Klopp. Til þess að vinir mínir sem engan áhuga hafa á fótbolta átti sig á því hvað ég er að tala um þá eru Liverpool eins og Slayer (ein bezta hljómsveit í heimi, fyrir þá sem ekki vita), undir stjórn Þjóðverjans. Og til að fá  enn dýpri samanburð þá voru Liverpool eins Wham áður en Klopparinn tók við stjórnartaumnum.

Þá aftur að  þunglyndinu, þið eruð eflaust farin að velta því fyrir ykkur hvers vegna ég er með þetta volæði,- Liverpool að spila eins og Slayer og í bullandi toppbaráttu. Hvað gæti mögulega verið að hrjá mig? Jú, sjáið þið til. Það er nefnilega fleira sem hangir á spýtunni. Þó skýringa á örlyndi Liverpoolaðdáandans undanfarna mánuði megi finna í þeirri velgengni sem hér að ofan er lýst, þá eru smá  tvist í þeirri sögu.

Manchester United er lið sem flestir Liverpoolaðdáendur viðurkenna fúslega að þeir hati meira en pestina. Ekkert lið hefur unnið ensku deildina oftar en ManU (til styttingar) og við Poolarar þolum það ekki. Þess vegna hefur verið svo gaman að horfa upp á ManU-liðið ekki geta blautan skít undanfarin ár og það þrátt fyrir að eyða stjarnfræðilegum upphæðum í leikmenn sem svo hafa ekki nema í mesta lagi miðlungs getu.

Það hefur samt ekki verið fyrr en á yfirstandandi keppnistímabili sem það hefur haldist í hendur feikigott gengi Liverpool og fullkomin skita ManU-liðsins, sem lengi framan af hefur verið að dóla sér einhversstaðar rétt fyrir ofan miðja deild, auk þess að spila drepleiðinlegan fótbolta. Gleði okkar Poolara er búin að vera fordæmalaus og ósvikin.

Kvíðinn fyrir næsta leik

Nú er hins vegar gamalkunnur ótti að læðast að mér. Á morgun, sunnudag er dúkað fyrir stórslag þessara tveggja liða á heimavelli ManU, Old Trafford. Það er ekkert sem er meira niðurlægjandi fyrir Liverpool-stuðningsmann en að tapa fyrir ManU. Ekkert!

Núna er það líka extra vont því Liverpool er búið að vera svo mikið betur sett á töflunni en erkifjendurnir allt tímabilið og stuðningsmenn verið duglegir að minnast á það við öll möguleg tækifæri. ManU hefur hins vegar verið að vakna til lífsins, er nú búið  að vinna níu leiki í beit og jafnvel boðið upp á skemmtilegan fótbolta inn á milli. Á sama tíma virðist vera komin einhver þynnka í Liverpool-partýið. Sóknarleikurinn hefur ekki verið svipur hjá sjón á nýju ári.

Við stuðningsmennirnir könnumst því miður allt of vel við þetta. Þetta er þessi slæmi kafli sem virðist koma á hverju tímabili og kæfa allar vonir okkar. Frasinn: „Við tökum þetta næst“ fer að heyrast æ-oftar. Ég vil samt ekki vera ræða þennan slæma kafla of mikið, ég vil ekki fyrir nokkra muni persónugera þennan slæma kafla of mikið, nóg er álagið samt. Það er bara svo sárt að við skulum finna okkur í þessum öldudal, einmitt þegar við þurfum að fara á Old Trafford og einmitt þegar ManU er í hörku formi.

Ég mun ekki svíkjast undan og kem til með að horfa á leikinn til enda þó óttinn sé að lama mig. Ég get að minnsta kosti huggað mig við það að ég kem aldrei til með að ganga einn í þunglyndi mínu eftir leik.

Höfundur er illa haldinn stuðningsmaður Liverpool


Athugasemdir

Nýjast