Þarf 300 milljónir til viðbótar á ári

Háskólinn á Akureyri. Mynd: Daníel Starrason
Háskólinn á Akureyri. Mynd: Daníel Starrason

Háskólinn á Akureyri verður að fá 300 milljón króna aukningu að raunvirði til að unnt sé að tryggja óskerta þjónustu við alla landsmenn og að viðhalda núverandi námsframboði. Þetta kom fram í tilkynningu sem Háskólaráð Háskólans á Akureyri sendi frá sér í dag.

Í fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar er ekki gert ráð fyrir aukningu á fjárveitingum til háskóla landsins næstu 5 árin. Framboð á námi og þjónustu háskóla landsins er því í verulegri hættu vegna fjárskorts. Í átakinu Háskólar í hættu hefur verið bent á þetta og rektorar allra háskóla hafa hvatt til að málefnið verði í forgangi hjá næstu ríkisstjórn. Það vantar verulega uppá að háskólar á Íslandi nái meðalframlagi á hvern nemenda í samanburði við meðaltal OECD landanna. Íslensku háskólarnir standa líka höllum fæti í samanburði við háskóla á Norðurlöndunum, þeim löndum sem við viljum helst bera okkur saman við.

Við gerð rekstraráætlunar fyrir Háskólann á Akureyri (fyrir árin 2017-2019) kemur þessi vandi berlega í ljós. Ljóst er að fáist ekki leiðrétting frá stjórnvöldum á fjárframlögum til háskólans getur hann ekki boðið uppá sama námsframboð og sömu þjónustu og hann hefur gert þrjá síðustu áratugi.

Fjárframlög verða að færast nær því sem gerist á Norðurlöndunum ef Háskólinn á Akureyri á að geta boðið uppá alþjóðlegt samkeppnishæft námsumhverfi. Framlög til Háskólans á Akureyri þurfa að hækka að raunvirði um 300 milljón króna á ári miðað við það sem nú er. Með þeirri aukningu væri hægt að ná jafnvægi í rekstri skólans og bjóða nemendum sambærilega þjónustu og gerist í samanburðarlöndum okkar.

Háskólinn á Akureyri 30 ára

Háskólinn á Akureyri verður 30 ára á næsta ári. Hann hefur verið í farabroddi hvað varðar aðgengi að námi með því að þróa og bjóða allt sitt nám í sveigjanlegu formi. Þannig hefur verið mögulegt að þjóna landinu öllu og styrkja fagstéttir kennara og hjúkrunarfræðinga um allt land ásamt því að mennta fólk til starfa í sjávarútvegi, iðjuþjálfun, félagsvísindum, viðskiptafræði og lögfræði – svo dæmi séu tekin. Alls hafa hátt í 4000 manns útskrifast frá Háskólanum á Akureyri og 75% þeirra hafa búið og starfað utan höfuðborgarsvæðisins á námstímanum. Þetta hefur hækkað menntunarstig á landsbyggðinni en um 80% nemenda starfa í sinni heimabyggð 5 árum eftir útskrift. Það væri köld gusa framan í íslensku þjóðina ef að háskólinn þyrfti að draga úr þjónustu og námsframboði á 30 ára afmælisári hans. Íslenskt samfélag þarfnast þess meira en nokkru sinni fyrr að geta boðið ungu háskólamenntuðu fólki störf í samkeppnishæfu umhverfi um allt land.

Háskólaráð Háskólans á Akureyri skorar á stjórnvöld og næstu ríkisstjórn að gera það að forgangsverkefni að tryggja háskólum landsins nægt rekstrarfé til framtíðar. Jafnframt þarf að tryggja að fjármögnun háskólanna verði í samræmi við stefnu Vísinda- og tækniráðs um jöfn framlög á við hvern nemanda á Norðurlöndunum.

 


Athugasemdir

Nýjast