Steingrímur J. opnar á ríkisstjórnarsamstarf með Sjálfstæðisflokki

Steingrímur J. Sigfússon, fv. formaður Vinstri grænna og fjármálaráðherra, hefur opnað á þann möguleika að Vinstri græn myndi ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokknum.

Þetta kemur fram í Morgunblaðinu í dag þar sem Steingrímur segir:

„Sem annar stærsti flokkur landsins og ábyrgt stjórnmálaafl getum við ekki skellt í lás á fyrir fram ákveðna flokka í stjórnarmyndunarviðræðum.“

Steingrímur hlaut endurkjör sem þingmaður Norðausturkjördæmis í nýliðnum alþingiskosningum. Hann segist mjög ánægður með upplegg Katrínar Jakobsdóttur, í formannsstóli VG eftir kosningar. Hann kveðst jafnframt mjög sáttur við að vera kominn á hliðarlínuna í þessum efnum.

Steingrímur á von á að nokkurn tíma geti tekið að ná saman meirihlutastjórn, og vísar þar til þess að yfirlýsingar forystumanna ýmissa flokka hafi verið mjög brattar.

Þá lætur Steingrímur hafa eftirfarandi eftir sér í Morgunblaðinu:

„Ef þetta fer svo að flækjast mikið munum við í VG sjálfsagt ekki skorast undan ábyrgð þó að áherslur okkar og Sjálfstæðisflokksins séu fjarlægar hvor annarri.“


Athugasemdir

Nýjast