#sendustraum

Árið 1922 tók Glerárvirkjun til starfa og hóf að senda straum inn á fyrsta dreifikerfi Akureyringa. Framleiðsla rafmagns í nútíma skilningi þess orðs átti sér þá þegar nokkra sögu og þegar árið 1894 hóf einn af talsmönnum þessarar miklu nýjungar, Frímann B. Arngrímsson, að rita greinar í blöð um tækifæri Akureyringa til rafmagnsframleiðslu. Frímann hafði kynnst þessari nýjung við störf sín í Ameríku og benti á hvílík tækifæri væru fyrir Íslendinga að virkja fallvötnin til raflýsingar og rafhitunar.

Þótt bæjarstjórn þess tíma sýndi hugmyndum þessum nokkurn áhuga þá voru verkefnin mörg sem biðu, vatnsveita og brunavarnir voru þar á meðal. Frímann benti á í skrifum sínum að með því að „nota fossa og fljót og ár Íslands til að rafhita hús og hýbýli“ myndi sparast stórfé í steinkola og olíukaupum.

Ekki stóð á vinsældum rafmagnsins eftir að Glerárvirkjun tók til starfa og ekki leið á löngu þar til hún annaði ekki þörfinni og undirbúningur hófst að virkjun Laxár í Aðaldal.

Saga frekari rafmagnsframleiðslu Norðlendinga verður ekki rakin hér en byltingin sem rafmagnið fól í sér var sannanlega komin til að vera.

Í dag er rafmagnið og óteljandi notkunarmöguleikar þess orðið að sjálfsögðum hlut í hugum okkar flestra. Í daglega lífinu leiða fæstir hugann að því sem að baki býr í framleiðslu, flutningi og dreifingu raforkunnar heim í hús til viðskiptavinarins. Stærstur hluti dreifikerfisins hér á Akureyri er hulinn augum almennings, og tiltölulega lítið fer fyrir þeim 110 dreifistöðvum sem nauðsynlegt er að hafa með reglulegu millibili um bæinn til þess að koma rafmagninu til skila á réttri spennu og gæðum. Sama er með lagnakerfið sem allt liggur neðanjarðar og víðast hvar útbúið með hringtengingum þannig að hægt er að tryggja fæðingu rafmagnsins úr fleiri en einni átt.

Í tilefni af degi rafmagnsins 23. janúar n.k. hefur SAMORKA, samtök veitu- og orkufyrirtækja, ákveðið að styðja verkefnið GIVEWATTS.org sem gengur út á að koma sólarorkulömpum í afskekkt þorp víðs vegar í Afríku. Með verkefninu er stuðlað að orkuskiptum í lýsingu sem t.d. gerir grunnskólanemendum fært að nýta raforku til ljóss í stað olíulampa við t.d. heimanám og lestur. Ekki aðeins er olían dýr heldur fylgir brennslu hennar einnig reykmengun inn í húsunum. Til þess að gefa öllum tækifæri til þess að styðja verkefnið er einnig efnt til leiks á facebook og instagram undir millumerkinu #sendustraum.

Fyrir hverja mynd sem tengist rafmagni á einhvern hátt og er merkt millumerkinu mun SAMORKA leggja 300 kr. til verkefnisins GIVEWATTS. Svo nú er að bregða á leik og styðja um leið þetta skemmtilega og góða verkefni um leið og við höfum í huga hversu heppnir við Íslendingar erum að njóta þeirra forréttinda að orkan okkar er ódýr um leið og hún er hrein og endurnýjanleg.

Höfundur er forstjóri Norðurorku og stjórnarformaður SAMORKU


Athugasemdir

Nýjast