Samfylkingin - jafnaðarmannaflokkur Íslands

Nú styttist í kosningar. Þessi örfáu orð mín gætu farið í að þylja upp kosningaloforð eða tala um allt það sem núverandi ríkisstjórn hefur gert rangt.

Ég kýs frekar að gera stuttlega grein fyrir grundvallarsýn Samfylkingarinnar á samfélagið og fyrir hvað flokkurinn stendur.

Eins og segir í stefnulýsingu Samfylkingarinnar þá aðhyllist flokkurinn jafnaðarmannastefnu. Enn í dag eru hinir ríku að verða ríkari og brauðmolakenningin um að almúginn verði saddur af því sem fellur af borðum hina auðugu, er reglulega matreidd ofan í okkur. Brauðmolakenningin getur farið vel með alla meðaltalsútreikninga, en raunstaða hins venjulega manns tekur ekki mið af meðaltalinu. Verðtryggð lán og leigumarkaður þar sem frumskógarlögmálið gildir, styrkir bankana og hina auðugu umfram aðra.

Tækifærin eiga að vera jöfn og eins fyrir alla, óháð efnahag, uppruna, kyni eða trúarbrögðum. Heilbrigðiskerfið og menntakerfið á að vera opið öllum. Þetta kann að hljóma sem sjálfsagt mál, en því miður er rík ástæða til að hamra á þessu reglulega. Lengri opnunartímar verslana og kröfur nútímasamfélagsins minna okkur á að vakt er aldrei lokið. Sem dæmi má nefna, að nú árið 2016, þurfa sjómenn að kaupa sjálfir þann fatnað og stígvél sem þeir standa í, votfættir út á opnu hafi, við að draga lífsbjörgina í þjóðarbúið. Í okkar síbreytilega heimi erum við stöðugt að kljást við eilífðar baráttumál sem snerta grundvallarréttindi almennings.

Jöfn tækifæri, félagslegur jöfnuður og samfélag sem er opið öllum lýsir þeim heimi sem ég vil búa í.

Samfylkingin stendur fyrir þessum baráttumálum! Því hvet ég alla til að setja X við S á kjördag.

Kjartan Páll Þórarinsson Höfundur skipar 5. sæti á lista Samfylkingarinnar í NA kjördæmi.


Athugasemdir

Nýjast