Öll börn eiga skilið að talað sé um þau af virðingu

Kristjana María Kristjánsdóttir
Kristjana María Kristjánsdóttir

Ég hef haft það fyrir reglu að tjá mig sem minnst um fréttir og greinar á netinu, enda leiðir það aldrei til neins góðs, nema einstaka sinnum get ég bara ekki setið á mér. Það hefur gerst óvenju oft síðustu daga og ákvað ég því að skrifa niður mínar eigin hugleiðingar og fá þannig útrás í stað þess að tuða á veggjum fólks á Facebook. Finnst það leiðinlegur ósiður.

Það sem ég hef lesið oft síðustu daga er aldrei má segja hlutina eins og þeir eru. Þarna er ég bara alls ekki sammála. Það má alveg tala um mál og ræða en fólk virðist oft á tíðum algjörlega missa alla virðingu fyrir öðrum, fyrir utan að staðreyndir eru oft af skornum skammti. En þetta er auðvitað allt í lagi því viðkomandi er svo fyndinn! Í alvöru? Er þetta nú húmorinn í dag… guð hjálpi okkur.

Nýjasta greinin sem fór í mínar fínustu hefur verið póstað út um allt og birst í blöðunum og hana ætla ég að taka fyrir í þessari grein. Alls ekki af persónulegum skoðunum mínum á höfundinum, þekkti nokkuð vel til Einars Ísfjörð á skólaárum hans og hef ekki haft neitt neikvætt um hann að segja hingað til.

Í fyrsta lagi: Skólakerfið

Það má sko aldeilis gagnrýna skólakerfið eins og annað en það er samt mikilvægt að gera sér grein fyrir því að skólakerfið hefur breyst töluvert síðan Einar var í skóla. Þess má geta að ég starfaði lengi í viðkomandi skóla og félagsmiðstöðinni í bænum og í vinnuskólanum.

Skyndihjálp skiptir gríðarlega miklu máli og var hún kennd í skólanum, vinnuskólanum og líka í framhaldsskólanum. Sennilega má hafa hana mun oftar og reglulega en ég man líka eftir námskeiðum á vegum rauða krossins sem hægt var að skrá sig í. Get ekki fullyrt um alla skóla og leikskóla en þar sem ég bý núna er skyndihjálp kennd fyrst í leikskóla.

Fjármálafræðsla hefur aukist til muna. Eflaust má gera meira en það nám þurfa heimilin líka að bera ábyrgð á. Ég veit um ótrúlega flott verkefni sem unnin hafa verið síðustu ár á unglingastigi, bæði undirbúin af kennurum sjálfum og einnig í samstarfi við bankana. Að mínu mati þurfa börnin að læra þessa hluti heima með því að taka þátt í heimilishaldinu. Skilja að það er ekki endilega hægt að fá nýjan síma um leið og hinn brotnar, hversu lengi mamma eða pabbi er að vinna fyrir nýjum síma eða jafnvel láta börnin einu sinni safna fyrir einhverjum hlutum sjálf! Svona læra börnin m.a. fjármálaæsi, ekki með því að fá allt upp í hendurnar og alls ekki með því að foreldrar „kaupi sér frið“.

„Ég er viss um að fræðsla fyrir foreldra, fagleg aðstoð og hvatning sé mun vænlegri til árangurs en illt umtal“

 

Næringarfræði má örugglega bæta þó hún sé meiri en áður fyrr. Margir foreldrar hafa eflaust fengið litla kennslu og kannski ætti að skoða að bjóða upp á næringarfræðslu fyrir foreldra. Ég er viss um að fræðsla fyrir foreldra, fagleg aðstoð og hvatning sé mun vænlegri til árangurs en illt umtal. Hreyfing er bara af hinu góða og nú geta nemendur í mörgum skólum valið um hreysti og/eða heilsueflingu á unglingastigi og jafnvel fá metnar íþróttaæfingar sem hvetur eflaust fleiri til að stunda íþróttir. Hér áður fyrr fórum við í matreiðslu sem í dag heitir heimilisfræði og er þá í mörgum skólum skipst á verklegum og bóklegum tímum.

Held að fá börn í dag séu að drukkna í kristinfræði. En allir hafa skoðun á því hvað á að kenna í skólunum og hvað ekki. Það verður aldrei hægt að gera öllum til geðs. Sumir hafa áhuga á trúmálum og koma úr trúuðum fjölskyldum. Trúarbragðafræði er kennd í meira mæli en kristinfræði og blandast þar inn virðing fyrir mismunandi menningarheimum sem mér sýnist ekki veita af.

Þeir sem ætla sér að verða guðfræðingar vilja örugglega fleiri trúarbragðafræðitíma alveg eins og tölvunarfræðingar hefðu viljað fleiri tölvutíma og íþróttafólk fleiri íþróttatíma.

Sem betur fer vöknum við upp einn daginn og áttum okkur á að við hefðum kannski getað gert betur og ég er viss um að margir í dag hefðu yfir höfuð ekkert vitað hvort kennarinn væri að tala um Jesús Krist, næringu eða sparnað, held að margir hefðu bara sofið jafn vært í tímum. Það er nefnilega þannig að við þurfum að bera ábyrgð á okkur sjálfum og leggja smá á okkur til þess að ná árangri. Leti er nefnilega ekki alltaf mest áberandi hjá feitum börnum, alls ekki og letin mælist ekki bara hversu langt og hratt við getum hlaupið.

 Í öðru lagi: Feitu börnin

Það er heldur ekki satt að öll börn í dag séu offitusjúklingar. Það eru gríðarlega mörg börn sem stunda íþróttir í dag og eru í góðu formi. Þar af leiðandi ekki hægt að segja að flest börn stundi bara íþróttir einu sinni í viku í skólanum, þau fara mörg hver á æfingar oft í viku, eftir aldri auðvitað. Það eru líka feit börn sem stunda íþróttir þó vissulega mörg þeirra geri það ekki. Hins vegar veit ég það sem kennari að feitu börnin eru sko alls ekki alltaf lötust og skila oft miklu betri árangri á mörgum sviðum en hin. Flestir íþróttakennarar vilja hafa meiri íþróttakennslu í hverjum bekk en stundatöflurnar í íþróttahöllunum eru oft ansi þéttar þegar sinna þarf öllum bekkjum í grunnskólanum og jafnvel framhaldsskólanum líka.

Við erum ótrúlega heppin að fá sundkennslu hvert ár á Íslandi og flest börn fara einu sinni í viku í sund. Foreldrar hafa líka tök á því að bjóða börnum sínum upp á aukna hreyfingu þar sem nú er boðið upp á íþróttaskóla á flestum stöðum fyrir börn niður í 3-4 ára aldur og í mínum heimabæ eru íþróttakennararnir mjög virkir og hafa m.a. boðið upp á íþróttaskóla fyrir 1. bekk þar sem börnin fá að kynnast mismunandi íþróttum til að geta svo valið sitt uppáhald. Held að það sé einmitt leiðin að farsælli íþróttaiðkun ef börnin hafa áhuga fyrir greininni. Einnig hafa þau komið til móts við börn og byrjað að þjálfa íþróttir sem börnin hafa sýnt áhuga. Þannig að það er ekki einungis á ábyrgð skólans að auka íþróttatíma heldur er það samfélagið og sveitarfélagið sem þarf að passa að það sé nóg í boði fyrir börnin og foreldrar þurfa að leggja á sig að sinna þessu um leið. Ég man að dóttir mín var í hreyfistund einu sinni í viku í leikskólanum.

Aðal atriðið hjá mér er að það er alltaf hægt að gera betur en við megum samt ekki vera alveg blind á það sem er gert.

Þau börn sem eru of þung þurfa vissulega aðstoð og það sem allra fyrst, það er enginn að breiða yfir það. En þau eiga skilið að borin sé virðing fyrir þeim og þau metin að sömu verðleikum og önnur börn. Þau eiga alls ekki að þurf að upplifa sig sem minna virði en önnur börn eða að foreldrar þeirra séu aumingjar.

  • Hvað með börn sem eru of létt? Eru foreldrar þeirra aumingjar af því að þau gefa þeim ekki nóg að borða?
  • Börn með lesblindu? Eru foreldrar þeirra aumingjar vegna þess að þau lásu ekki nógu oft heima?
  • Börn með ADHD? Eru foreldrar þeirra aumingjar því þau afsaka vandamálið í stað þess að takast á við það?
  • Börn með athyglisbrest? Eru foreldrar þeirra aumingjar af því að þau héldu þeim ekki við efnið?
  • Vatnshræddu og ósyndu börnin? Eru foreldrar þeirra aumingjar af því að þau fóru ekki með þau í sund daglega?

Eða getur verið að það búi kannski eitthvað meira og enn alvarlegra að baki hjá þessum börnum sem þau þurfa aðstoð við frá fullorðnu fólki sem sýnir þeim virðingu og ástúð. Hvert eiga þessi grey að leita ef við fullorðna fólkið tökum ekki á móti þeim opnum örmum og án allra fordóma?

Það er ekki hægt að bera saman fullorðið fólk sem fer í áfengismeðferð og börn sem eru skikkuð í aukatíma í íþróttum. Ótrúlega barnaleg samlíking.

  • Eigum við þá að binda mjóu börnin eða börnin sem kljást við anorexíu við stól og neita að leysa þau fyrr en þau eru búin að þamba einn pela af rjóma og gleypa súkkulaði með?
  • Loka barnið með lesblindu inni í sérkennslustofu og opna þegar þau eru búin með bókina?
  • Neita að prenta út myndræna stundatöflu fyrir ADHD barnið því það getur bara haft eins stundatöflu og hinir?
  • Slá barnið með athyglisbrest reglulega í andlitið fyrir framan alla til að halda athylginni?
  • Henda vatnshrædda og ósynda barninu í djúpu laugina og segja því að bjarga sér? Svona væri lengi hægt að telja.

„Við vitum ekki hvað þessir foreldrar hafa á herðum sér. Það er ekki hægt að setja alla undir sama hatt. Við þurfum að kynnast aðstæðum og fólki áður en við dæmum“

Eða eigum við kannski að taka öllum börnum eins og þau eru og aðstoða þau sem þurfa aðstoð eins vel og við getum. Bjóða foreldrum upp á aðstoð í stað þess að rakka þau niður. Við vitum ekki hvað þessir foreldrar hafa á herðum sér. Það er ekki hægt að setja alla undir sama hatt. Við þurfum að kynnast aðstæðum og fólki áður en við dæmum. Við eigum að kenna börnum okkar að það eigi að tala við og um fólk af virðingu. Þau læra það sem fyrir þeim er haft. Allt þetta niðrandi tal leiðir ekkert gott af sér og um leið og við berjumst fyrir að uppræta einelti í skólanum þá leyfum við okkur að deila svona pistlum þar sem ákveðinn hópur barna og fólks er niðurlægður fyrir holdafar sitt?  Í alvöru? Erum við ábyrgir foreldrar ef við leyfum okkur það?

Foreldrar sem tala á niðrandi hátt um aðra eru að koma þeim skilaboðum til unga fólksins að það sé í lagi. En það er bara alls ekki í lagi! Hugsum okkur nú aðeins um áður en við ýtum á ENTER og veltum fyrir okkur hvort við gætum verið að særa einhvern með skrifum okkar. Ég vona innilega að börn fái aðstoð með sín vandamál hvort sem þau eru feit, mjó, lesblind, ofvirk, vatnshrædd, feimin, með lítið sjálfstraust eða athyglisbrest. En ég vona líka innilega að þau skaðist ekki af öllum lélegu fyrirmyndunum á internetinu, þar held ég að við séum að gera ein mestu mistökin í uppeldinu.

Vonandi hugsar fólk sig aðeins betur um áður en það deilir svona vitleysu og pælir svolítið betur í innihaldinu.  ÖLL BÖRN EIGA SKILIÐ AÐ TALAÐ SÉ UM ÞAU, OG VIÐ ÞAU, AF VIRÐINGU! Það hefur ekki verið gert hér og óskiljanlega margir sem taka þátt í því. Munið að þetta snýst ekki alltaf um það sem sagt er – heldur hvernig það er sagt. Það er aldrei að vita nema þau verði sjálf aumingjar í framtíðinni og þurfi á aðstoð og umhyggju að halda.

Kristjana María,

Grunnskólakennari, starfandi deildarstjóri á leikskóla og móðir barns… sem þarf að passa að borði nóg.

 


Athugasemdir

Nýjast