Norðurþing verði plastpokalaust fyrir áramót

Stjórnsýsluhús Norðurþings. Mynd: epe
Stjórnsýsluhús Norðurþings. Mynd: epe

Mikil vakning hefur orðið á Íslandi og á Vesturlöndum undan farin ár um skaðsemi plasts á umhverfið. Samkvæmt upplýsingum á vef Upplýsingaskrifstofu Sameinuðu þjóðanna fyrir Vestur Evrópu (UNRIC) er 70 milljón plastpokum hent á Íslandi á ári hverju. Það er rökrétt að ætla að verulegur hluti þeirra lendi í hafinu með tíð og tíma.

Helena Eydís Ingólfsdóttir er ein fjögurra aðila sem skorað hafa á sveitarfélagið Norðurþing að beita sér fyrir því að sveitarfélagið verði burðarplastpokalaust frá og með 1. Janúar 2017. Vikudagur.is slá á þráðinn til hennar og ræddi við hana um hver kveikjan sé að þessari hugmynd.

„Það er eitt og annað sem ýtir þessu af stað. Vinnustaðurinn sem við fjögur deilum hefur frá því 2007-8 verið að flokka rusl. Við vorum í rauninni byrjuð á því nokkru áður en Norðurþing fór af stað með það,“ segir Helena Eydís og vísar þarna til Þekkingarnets Þingeyinga. Hinir þrír aðilarnir sem standa fyrir áskoruninni eru: Sesselja Guðrún Sigurðardóttir, Þorkell Björnsson og Þorkell Lindberg Þórarinsson.

Önnur sveitarfélög riðið á vaðið

Á vef UNRIC kemur fram að hver plastpoki sé notaður að meðaltali í 25 mínútur en það getur tekið allt að fimm hundruð ár fyrir plastið að brotna algjörlega niður í náttúrunni. „Við erum búin að reyna vera svolítið umhverfismeðvituð í langan tíma og höfum verið að fylgjast með því líka hvað aðrir hafa verið að gera í þessum málum,“ segir Helena Eydís og bendir á Stykkishólm máli sínu til stuðnings.

Umhverfishópur Stykkishólms fékk í ársbyrjun styrk frá umhverfis- og auðlindaráðuneytinu til að ráðast í tilraunaverkefni sem felur í sér að gera Stykkishólm að burðarplastpokalausu sveitarfélagi. Verkefnið var unnið í samstarfi við Náttúrustofu Vesturlands, Landvernd, Umís/Environice og Stykkishólmsbæ.

Þá hefur samskonar verkefni verið hrint af stað á Vestfjörðum, en þar voru fjölnota burðarpokar sendir á hvert heimili á svæðinu.

Í júlí á síðasta ári ályktaði Alþingi með þingsályktun að fela umhverfis- og auðlindaráðherra að finna leiðir til að minnka plastpokanotkun hér á landi og birta aðgerðaáætlun. Við val á leiðum skyldi litið til annarra ríkja í Evrópu þar sem markvisst hefur verið dregið úr plastpokanotkun. Starfshópur var skipaður af umhverfis- og auðlindaráðherra í byrjun árs 2016 til að móta tillögur að aðgerðum um hvernig draga megi úr notkun plastpoka með árangursríkum hætti og setti starfshópurinn saman tillögu að aðgerðaáætlun. Sú aðgerðaáætlun gildir fyrir árin 2016 til 2018 og hefur það að markmiði að draga úr plastpokanotkun á Íslandi.

Helena Eydís segir þessar tölur um að 70 milljón plastpokum sé fargað á Íslandi á hverju ári sláandi. „Manni finnst oft eins og maður sjálfur eða fjölskyldan sé ekki að nota marga plastpoka yfir árið, en svo sér maður að þetta safnast saman í þetta magn,“ segir hún og bætir við: „Eitt af því sem við vísum til í bréfinu til Norðurþings er að í maga fugla í Norður Atlandshafi finnist plast í 94% tilfella. Það er gígantísk tala.“

Kallar eftir öðrum lausnum

Hún segir að til séu aðrar lausnir og bendir á að fólk af eldri kynslóðum hafi ekki alist upp við að nota plastburðarpoka. „það var verið að nota pappa- og taupoka, þannig að við höfum aðrar lausnir til að draga úr plastnotkun.“

„Við skoruðum á Sveitarfélagið að beita sér fyrir þessu og kalla til samstarfs fyrirtæki og stofnanir á  svæðinu til að vinna að þessu þannig að þetta verði samstarfsverkefni á milli þessara aðila,“ segir Helena Eydís.

Hún nefnir að þróunarlönd eins og Úganda og Rúanda séu þegar búin að banna plastpoka. „Svo erum við að horfa á sveitarfélög eins og Stykkishólm sem er mjög framarlega í þessum umhverfismálum. Og okkur finnst engin ástæða til að við í Norðurþingi séum neinir eftirbátar í þessum málum, heldur eigum við að vera meðal þeirra sem eru fremstir í umhverfismálum.Við erum ekki að horfa til þess að banna eigi allt plast eða það megi alls ekki nota plast heldur að við eigum að taka þau skref sem við getum tekið til að breyta og bæta,“ segir Helena Eydís Ingólfsdóttir, verkefnastjóri hjá Þekkinganeti Þingeyinga.

Áskorun fjórmenninganna má lesa í heild sinni hér að neðan:

„Við undirrituð skorum hér með á sveitarstjórn Norðurþings að gera Norðurþing að plastpokalausu samfélagi frá og með 1. janúar 2017 og fylgja þar með því fordæmi sem önnur sveitarfélög á Íslandi hafa sett og styðja við áform ríkisvaldsins um að draga úr notkun plastpoka á Íslandi. Þá hvetjum við til þess að haft verði samráð við eigendur fyrirtækja í verslun og þjónustu og Íslenska gámafélagið um að hrinda verkefninu af stað, finna aðrar lausnir en að nota plastpoka undir vörur í verslun eða undir sorp til förgunar.“

-Helena Eydís Ingólfsdóttir

-Sesselja Guðrún Sigurðardóttir

-Þorkell Björnsson

-Þorkell Lindberg Þórarinsson

 


Athugasemdir

Nýjast