Njáll Trausti lætur af störfum bæjarfulltrúa

Njáll Trausti Friðbertsson, Alþingismaður. Mynd: Daníel Starrason
Njáll Trausti Friðbertsson, Alþingismaður. Mynd: Daníel Starrason

Njáll Trausti Friðbertsson bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokks á Akureyri hefur beðist lausnar frá og með næstu áramótum. Þetta gerði hann á fundi bæjarstjórnar í gær þriðjudag. Hann hefur hafið störf á Alþingi Íslendinga.

„Ástæða þess að ég segi mig frá störfum sem bæjarfulltrúi er sú að ég hef hlotið kjör til Alþingis. Við þær aðstæður tel ég réttast að hleypa næsta kjörna fulltrúa Sjálfstæðisflokksins inn í bæjarstjórn.

Ég er afskaplega þakklátur fyrir það samstarf sem ég hef átt við kjörna fulltrúa og starfsmenn Akureyrarbæjar og jafnframt er ég þakklátur Akureyringum fyrir að hafa gefið mér kost á því að vinna að hagsmunum bæjarins og íbúum hans,“segir í bréfi frá Njáli Trausta sem forseti bæjarstjórnar las upp á fundinum.

Varamaður Njáls Trausta, Bergþóra Þórhallsdóttir óskaði jafnfrant eftir tímabundnu leyfi frá störfum bæjarfulltrúa frá áramótum til loka júlímánaðar 2017. Baldvin Valdemarsson tekur því til starfa sem aðalfulltrúi í bæjarstjórn tímabundið frá og með áramótum í fjarveru Bergþóru.

Beiðnir Njáls Trausta og Bergþóru voru báðar samþykktar samhljóða.


Athugasemdir

Nýjast