Matarmenningarhátíð á Akureyri um helgina

Mikill fjöldi fólks sótti sýninguna í fyrra. Mynd: akureyri.is
Mikill fjöldi fólks sótti sýninguna í fyrra. Mynd: akureyri.is

Local Food Festival matarmenningarhátíðin á Norðurlandi verður haldin í Íþróttahöllinni á Akureyri um næstu helgi, 30. september til 1. október. Þetta er stærsti viðburður sinnar tegundar á landinu og verður hér eftir haldinn annað hvert ár.

Tilgangur hátíðarinnar er að vekja athygli á Norðurlandi og þeirri miklu matvælaframleiðslu sem þar fer fram, fjölbreyttu úrvali veitingastaða, matarmenningu og annarri framleiðslu sem tengist matvælum.

Norðurland er stærsta matvælaframleiðslusvæði landsins og er sýningin því kjörinn vettvangur fyrirtækja og einstaklinga í geiranum til að vekja athygli á framleiðslu, matarmenningu, matartengdri ferðaþjónustu og verslun.

Local Food sýninguna sóttu á síðasta ári um 15 þúsund gestir og yfir 30 fyrirtæki kynntu framleiðslu sína. Sýningin endurspeglar hinn mikla styrk Norðurlands sem stærsta matvælaframleiðslusvæðis landsins og er því kjörinn kynningarvettvangur fyrirtækja og einstaklinga til að vekja athygli á framleiðslu, matarmenningu, veitingastarfsemi, matartengdri ferðaþjónustu og verslun þessu tengd. Von er á erlendum gestum á sýninguna sem vinna að matartengdri ferðaþjónustu og er tilgangurinn að fræðast um norðlenska matarmenningu ásamt því að kynna eigin hefðir. Lögð er áhersla á að Local Food sýningin sé skemmtileg og eru skipulagðir viðburðir s.s. hinar ýmsu matreiðslukeppnir þar sem fagfólk og almenningur spreytir sig með hráefni úr héraði. 


Athugasemdir

Nýjast