Játaði á sig vopnað rán á Akureyri

Mynd: Google
Mynd: Google

Rúmlega tvítugur karlmaður sem úrskurðaður hafði verið í vikulangt gæsluvarðhald á mánudag grunaður um vopnað rán í verslun Samkaup/Strax við Borgarbraut á Akureyri síðasta laugardag hefur játað verknaðinn. Honum var í kjölfarið sleppt úr haldi lögreglu.

Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á Akureyri er málið upplýst og því ekki talin þörf á að hafa manninn lengur í gæsluvarðhaldi. Búast megi við að ákæra verði gefin út á næstu vikum eða mánuðum.

Maðurinn ógnaði starfsmanni verslunarinnar með hnífi og tók peninga úr afgreiðslukassa. Engan sakaði, en starfsfólki verslunarinnar var nokkuð brugðið. Lögregla segir ekki vera um verulega upphæð að ræða sem maðurinn hafði á brott með sér en vill ekki gefa upp hversu há hún var. 

Lögregla lýsti eftir manninum með myndbirtingum í kjölfar ránsins og var hann handtekinn degi síðar. Maðurinn neitaði þó sök í fyrstu.


Athugasemdir

Nýjast