Hverjir eiga rétt á sálfræðiþjónustu?

Við sem samfélag verðum að gangast við því að geðsjúkdómar á borð við kvíða og þunglyndi eru sjúkdómar. Til þess að eyða fordómum í samfélaginu gagnvart börnum og fullorðnum með geðsjúkdóma þurfa stjórnvöld hverju sinni að ganga fram með góðu fordæmi og hætta að mismuna einstaklingum eftir því með hvaða sjúkdóm þeir eru.

Þessi mismunun er margþætt. Fyrst ber að nefna að sálfræðiþjónusta er ekki hluti af tryggingakerfinu og þarf sjúklingur að bera allan kostnað sjálfur. Í öðru lagi þá eru biðlistar eftir þeirri þjónust sem er í boði langir og á meðan beðið er eftir meðferð getur vandinn hæglega vaxið hratt. Aðgengi ungs fólks að sálfræðiþjónustu er ábótavant og hefur undirritaður fundið sérstaklega fyrir því hafandi starfað sem sálfræðingur við Verkmenntaskólann á Akureyri í fjögur ár. 

Viðreisn hefur skýra stefnu varðandi geðheilbrigðismál sem ég tengi við og tel raunhæfa. Viðreisn vill auka áherslu á meðhöndlun geðsjúkdóma og efla forvarnir sem hægt væri að framkvæma í gegnum skólakerfið og heilsugæsluna þar sem þjónustan væri sýnileg og biðlistar stuttir. Viðreisn vill að sálfræðiþjónusta verið færð í þrepum inn í tryggingakerfið og að sálfræðiþjónusta verði hluti af þeirri þjónustu sem starfrækt er innan framhaldsskólanna. Semsagt að allir sem þurfi, fái sálfræðiþjónustu við hæfi. 

Þessar aðgerðir eru raunhæfar og auka líkurnar á því að fordómar minnki og fólk leiti sér fyrr aðstoðar. Með þessum aðgerðum hættum við vonandi að heyra dæmi af foreldrum sem fresta því að fara með barnið sitt til sálfræðings vegna kostnaðar. Megi komandi stjórnvöldum hlotnast sú gæfa að hætta að mismuna fólki eftir sjúkdómum og fjárhagsstöðu.

Hjalti Jónsson sálfræðingur

5. sæti Viðreisnar í NA-kjördæmi


Athugasemdir

Nýjast