Hætta rútuferðum milli Keflavíkur og Akureyrar

Síðasta beina áætlunarferðin á vegum Gray Line milli Keflavíkurflugvallar og Akureyrar verður farin föstudaginn 30. september. Ekki verður boðið upp á ferðirnar í vetur. Næstu mánuði verður metið hvort grundvöllur telst fyrir áframhaldandi ferðum næsta sumar. Þetta kemur fram í tilkynningu frá félaginu.

„Það verður að segjast eins og er að nýtingin í þessum ferðum, sem hófust í apríl, hefur reynst mun lakari en við áttum von á,“ segir Þórir Garðarsson stjórnarformaður Gray Line. „Þar með er þó ekki sagt að við höfum misst trú á þessum ferðamöguleika. Bein lína frá Keflavíkurflugvelli er án vafa besti valkosturinn til að gera ferðamönnum kleifst að komast viðstöðulaust út á land. Sömuleiðis hentar þessi ferðamáti fólki að norðan ákaflega vel til að komast í flug og hægt að komast í rútuna á nokkrum stöðum á leiðinni, til að mynda í Skagafirði, Blönduósi, Staðarskála og Borgarnesi.“

 Þórir segir að margt megi læra af þessu verkefni. Fáir hafi til að mynda áttað sig á þeim möguleika að leiðin milli Akureyrar og flugvallarins lá um Reykjavík. Ekki þurfti endilega að fara til Keflavíkur, heldur var um að ræða raunverulegan valkost til að ferðast með lúxusrútu milli höfuðstaðar norðurlands og höfuðborgarinnar. 

 „Við vorum þar að auki vel samkeppnisfær við Strætó bs í fargjaldi, þó svo við þurfum að leggja virðisaukaskatt á fargjöldin, en Strætó ekki,“ segir Þórir.

Segja rútuferðir hagkvæmari en ríkisstyrkt flug

Þórir Garðarsson bendir á ein rútuferð á dag frá Keflavíkurflugvelli til Akureyrar geti skilað yfir 400 ferðamönnum á viku beint út á land. Á sama tíma sé ríkið að leggja 300 milljónir króna á ári í flugþróunarsjóð til að styrkja beint flug erlendis frá til Akureyrar og Egilsstaða.

„Tvær flugferðir í viku erlendis frá skila færri farþegum til Akureyrar en ein rúta sem fer á milli daglega frá Keflavíkurflugvelli. Vissulega er athugandi að kanna hvort beint flug erlendis frá geti skilað árangri. En það hefði í leiðinni verið full ástæða til að styðja við ferðavalkost Gray Line, sem er margfalt ódýrari en skilar sama eða meiri árangri,“ segir Þórir.

Hann bendir á tíðni flugferða til Keflavíkur máli sínu til stuðnings. Samkvæmt upplýsingum frá Túrista.is er áætlað að í janúar næstkomandi verði 30 flugferðir á dag til Keflavíkur og næsta sumar verði þær 85 á dag. Árangursríkt og hagkvæmt sé miðað við þennan fjölda að geta boðið upp á beinar og þægilegar rútuferðir beint út á land og utan af landi.


Athugasemdir

Nýjast