Framtíð Reykjavíkurflugvallar

Í bréfi sem ég sendi Framsóknarmönnum í Norðausturkjördæmi fyrir skömmu fór ég yfir sýn mína á Framsóknarflokkinn og reyfaði þau verkefni sem ég hef unnið að á kjörtímabilinu. Auk þess tíundaði ég helstu verkefni í þeim málaflokkum sem að mér hafa snúið á kjörtímabilinu og ég hef borið ábyrgð á sem formaður nefnda.

Flestum orðum eyddi ég, eðli málsins samkvæmt, í mál sem eru í verkahring umhverfis- og samgöngunefndar þar sem ég gegni formennsku.

Á næsta kjörtímabili tel ég þó að eitt málefni sé mikilvægara en önnur og það er framtíð Reykjavíkurflugvallar. Hörð barátta stendur yfir um neyðarbrautina svokölluðu og örfá ár eru í að flugvellinum verði lokað alveg samkvæmt aðalskipulagi Reykjavíkurborgar.

Í raun er framtíð eins mikilvægasta samgöngumannvirkis þjóðarinnar í mikilli óvissu og ef heldur fram sem horfir rofnar mikilvægasta tenging landsbyggðarinnar við höfuðborgarsvæðið með þeim slæmu afleiðingum sem það hefur í för með sér.

Það er óþarfi að fjalla í löngu máli um hvers vegna Reykjavíkurflugvöllur er eins mikilvægur og raun ber vitni. Flest okkar sem erum utan af landi þurfum reglulega að fara með stuttum fyrirvara til höfuðborgarinnar. Við eigum vini og ættingja fyrir sunnan, flestir þekkja einhvern sem þurft hefur á sjúkraflugi að halda en þar geta mín­útur oft skipt sköpum. Einnig er greið­ur aðgangur að stjórnsýslu og helstu menntastofnunum þjóðarinnar mikilvægur íbúum landsbyggðarinnar og því er það engin tilviljun að allri þessari þjónustu hefur verið fundinn stað­ur nálægt flugvellinum í Vatnsmýrinni.

Í byrjun kjörtímabilsins benti ég á að eina leiðin til að tryggja framtíð Reykjavíkurflugvallar væri að Alþingi tæki ákvörðun um framtíð hans. Um væri að ræða almannahagsmuni og það væri eðlilegt að lýðræðislega kjörnir fulltrúar, allrar þjóðarinnar, tækju ákvörðunina. Ég lagði fram frumvarp þar sem ég lagði til að skipuð yrði nefnd, sambærileg þeirri og færi með málefni Keflavíkurflugvallar, sem myndi fjalla um skipulagsmál flugvallarins en ef taka ætti stærri ákvarð­anir eins og um brotthvarf einstakra flugbrauta eða flugvallarins í heild sinni myndi koma til kasta Alþingis.

Í stuttu máli afgreiddu borgaryfirvöld málið á þann veg að „skipulagsvald sveitarfélaganna væri heilagt“. Skipti engu þótt bent væri á að í stjórnarskránni kæmi skýrt fram að sjálfsákvörðunarréttur sveitarfélaga takmarkaðist af almennum lögum settum af Alþingi. Einnig að Alþingi hefði sett fjölmörg lög og samþykkt þings­ ályktanir sem settu valdi sveitarfélaganna skorður. Meira að segja fjölmennasta undirskriftasöfnun þjóðarinnar á þeim tíma var afgreidd sem marklaus þó að þar kæmi fram skýr vilji um að flugvöllurinn yrði áfram í Vatnsmýrinni.

Í annað skipti sem ég lagði frumvarpið fram stóð allur þingflokkur Framsóknarflokksins að baki frumvarpinu. Í meðförum umhverfis- og samgöngunefndar var einnig lagt til að Akureyrarflugvöllur og Egilsstaðaflugvöllur yrðu færðir undir sama hatt og Reykjavíkurflugvöllur enda eru þeir allir varaflugvellir Keflavíkurflugvallar fyrir millilandaflug. Var málið afgreitt úr nefnd með þessum breytingum en komst ekki í atkvæðagreiðslu.

Í sumar féll dómur um hina svokölluðu neyðarbraut í Hæstarétti þar sem reyndi á skipulagsreglur Reykjavíkurflugvallar og samkomulag fyrrverandi innanríkisráðherra og fyrrverandi borgarstjóra Reykjavíkur. Þótt niðurstaðan hafi verið vonbrigði og rétturinn hafi komist að því að samkomulagið um lokun neyðarbrautarinnar stæðist kom eitt skýrt fram í niðurstöðu dómsins. Það var að Alþingi getur sett lög og reglur sem takmarka sjálfsákvörðunarrétt Reykjavíkurborgar þegar kemur að Reykjavíkurflugvelli eins og ég hafði ítrekað bent á. Frumvarpið stendur því og mikilvægt er að það verði að lögum.

Það skiptir máli í þessu samhengi að tryggt verði að Reykjavíkurflugvöllur verði áfram í Vatnsmýrinni á meðan jafn góður eða betri valkostur er ekki til staðar. Slíkt benti núverandi innanríkisráðherra á í bréfi til borgarstjórnar Reykjavíkur í síðustu viku.

Ég hef samið frumvarp þess efnis sem hægt er að leggja fram ef borgarstjórn er ekki til viðræðna um að tryggja tilveru þessa mikilvæga samgöngumannvirkis til lengri tíma. Það er einfalt og gengur einungis út á að sett verði í lög að flugvöllurinn verði áfram í Vatnsmýrinni þangað til jafn góður eða betri valkostur er finnst. Tveir virtir hæstaréttarlögmenn hafa nú þegar staðfest að slíkt standist stjórnskipan landsins.

Þá er ég annar á lista þeirra sem standa að þingsályktunartillögu sem fjallar um að þjóðin fái að segja vilja sinn í þjóðaratkvæðagreiðslu um hvort völlurinn eigi að fara eða vera. Það skiptir miklu að hún fái umfjöllun á Alþingi og komist í atkvæðagreiðslu.

Þrátt fyrir að minn tími hafi að miklu leyti farið í málefni Reykjavíkurflugvallar á síðustu misserum og ég hafi bent á raunhæfar lausnir til að leysa málið ræðst framtíð flugvallarins á næsta kjörtímabili eins og ég bendi á í upphafi greinarinnar.

Þá skiptir öllu að við stjórnvölinn verði einstaklingar sem hafa það að forgangsmáli að vinna að framtíð flugvallarins í Vatnsmýrinni. Það er ekki aðeins mikilvægt til að tryggja aðgengi að heilbrigðisþjónustu, stjórnsýslu og menntun heldur er flugvöllurinn mikilvægasta tækið til að efla og styrkja einstök byggðarlög, sérstaklega þau sem eiga í varnarbaráttu.

Einnig getur hann skipt sköpum í að dreifa ferðamönnum betur um landið sem er eitt brýnasta umhverfismál samtímans og þá eru flugsamgöngur gríðarlega mikilvægar til að létta álagi á vegakerfi landsins og auka þar með öryggi vegfarenda.

Það að auka vægi innanlandsflugsins er því ekki aðeins samgöngumál, heldur einnig byggða- og velferðarmál.

Höfundur er alþingismaður.


Athugasemdir

Nýjast