Framsýn sakar menntamálaráðherra um faglegt metnaðarleysi

Fjárhagsstaða Framhaldsskólans á Húsavík er ekki góð.
Fjárhagsstaða Framhaldsskólans á Húsavík er ekki góð.

Í síðustu viku samþykkti Framsýn stéttarfélag að senda frá sér ályktun vegna stöðu Framhaldsskólans á Húsavík (FSH), þar sem tekið var heilshugar undir áhyggjur Skólanefndar Framhaldsskólans á Húsavík yfir fjárhagslegri stöðu skólans og kallaði eftir tafarlausum aðgerðum stjórnvalda til að tryggja rekstrargrundvöll skólans til framtíðar.

Til að þrýsta enn frekar á málið hefur stéttarfélagið nú sent menntamálaráðherra bréf til að þrýsta enn frekar á málið.

Í bréfinu lýsir Framsýn furðu sinni á þeirri stöðu „sem framhaldsskólarnir eru settir í með tregðu á fjármagni þannig að skólarnir geti staðið við skuldbindingar sínar og greitt eðlilega reikninga“.

Þá kemur fram að aukin fjárframlög vegna launahækkana til FSH námu aðeins um 30% af raunhækkunum auk þess sem fjárframlög vegna skipulagsbreytinga að kröfu aðalnámskrár voru ekki í takti við þær áætlanir.  „Af hverju fjármagn fylgir ekki ákvörðunum ráðuneyta sem krefjast fjárúthlutunar vekur furður Framsýnar stéttarfélags og vekur upp spurningar um faglegan metnað menntamálayfirvalda gagnvart skólanum. Á meðan stjórnendur skólans þurfa að nýta allan sinn tíma til að finna leiðir til að endar nái saman fjárhagslega, slökkva elda og aðlaga skólann að nýrri aðalnámskrá gefst enginn tími til að leiða skólann til frekari faglegrar þróunar,“ segir í bréfinu.

Staða skólameistara ekki auglýst

Einnig kemur fram að staða skólameistara FSH hafi enn ekki verið auglýst, en frá því í mars sl. varð ljóst að staðan yrði laus frá og með ágúst á þessu ári. Skipaður var skólameistari til bráðabirgða eða til 31. desember næstkomandi. Þrátt fyrir þetta hefur staðan ekki verið auglýst. „Hvað menntamálaráðherra gengur til með slíkum vinnubrögðum er erfitt að ráða í en bendir til áhuga- og metnaðarleysis gagnvart skólanum og menntun ungmenna á svæðinu,“ segir í bréfi Framsýnar til menntamálaráðherra.

Bréfið í heild sinni má lesa hér að neðan:

Hlutverk og markmið skólagöngu er samkvæmt lögum að stuðla m.a. að alhliða þroska nemenda, þjálfa margvísilega hæfni og miðla þekkingu. Framhaldsskólar gegna þar mikilvægu hlutverki og eru ein af grundvallarstoðum þess samfélags sem þeim er ætlað að þjóna.

Framhaldsskólinn á Húsavík hefur í gegnum tíðina þróast að breyttum kröfum eftir því sem við hefur átt. Hann hefur verið vel rekinn og oftar en ekki skilað fjárhagslegum afgangi miðað við fjárframlög. Eins og menntamálaráðherra er vel kunnugt um krafðist ný og metnaðarfull aðalnámskrá gagngerra breytinga á skipulagi náms nemenda með tilætlaðri vinnu og álagi á skólana. Eðlilega skarast þessi tvö kerfi á meðan nemendur úr eldra námsskipulaginu klára sitt nám. Þessi skörun kallar á aukið framboð á áföngum og ætla mætti að yfirvöld menntamála hefðu tekið tillit til þessa við úthlutun fjármagns til skólanna, ekki síst til smærri skólanna sem hafa minni möguleika á hagræðingu og hafa jafnar skyldur til að uppfylla hlutverk laga um framhaldsskóla. Jafnframt hækkuðu laun framhaldsskólakennara umtalsvert sem kallaði enn frekar á aukin fjárframlög.

Þessar forsendur þekkja yfirvöld menntamála mjög vel og er því með öllu óskiljanleg sú staða sem framhaldsskólarnir eru settir í með tregðu á fjármagni þannig að skólarnir geti staðið við skuldbindingar sínar og greitt eðlilega reikninga. Framhaldsskólinn á Húsavík hefur vissulega brugðist við þrengri fjárframlögum, fækkað stöðugildum og dregið saman í rekstri. Samt sem áður vantar upp á svo endar nái sama. Ekki er um að ræða stórar fjárhæðir sem gerir málið enn vandræðalegra fyrir yfirvöld menntamála í landinu sem bera ábyrgð á þessu skólastigi.

Aukin fjárframlög vegna launahækkana til FSH námu aðeins um 30% af raunhækkunum auk þess sem fjárframlög vegna skipulagsbreytinga að kröfu aðalnámskrár voru ekki í takti við þær áætlanir. Af hverju fjármagn fylgir ekki ákvörðunum ráðuneyta sem krefjast fjárúthlutunar vekur furður Framsýnar stéttarfélags og vekur upp spurningar um faglegan metnað menntamálayfirvalda gagnvart skólanum. Á meðan stjórnendur skólans þurfa að nýta allan sinn tíma til að finna leiðir til að endar nái saman fjárhagslega, slökkva elda og aðlaga skólann að nýrri aðalnámskrá gefst enginn tími til að leiða skólann til frekari faglegrar þróunar.

Frá því í mars 2016 hefur verið ljóst að staða skólameistara skólans yrði laus frá ágúst 2016. Þessi staða var ekki auglýst og skipaður var skólameistari til 31. desember 2016 á síðustu metrunum fyrir skólabyrjun í haust. Enn er staða skólameistara ekki auglýst sem augljóslega skilur skólann og skólaumhverfið eftir í mikilli óvissu. Hvað menntamálaráðherra gengur til með slíkum vinnubrögðum er erfitt að ráða í en bendir til áhuga- og metnaðarleysis gagnvart skólanum og menntun ungmenna á svæðinu.

Þessi staða Framhaldsskólans á Húsavík sem yfirvöld menntamál í landinu bera ábyrgð á er í besta falli vandræðaleg og kallar á augljósar aðgerðir til bóta þegar í stað. Skólasamfélagið á rétt á samkvæmt lögum á að rekstrarumhverfi Framhaldsskólans á Húsavík ýti undir faglega forystu á traustum fjárhagsgrunni.

Virðingafyllst

f.h. Framsýnar stéttarfélags
Aðalsteinn Árni Baldursson formaður

 

 


Athugasemdir

Nýjast