Framkvæmdir geta haldið áfram

Tölvugerð mynd
Tölvugerð mynd

Á ríkisstjórnarfundi í morgun var samþykkt frumvarp forsætisráðherra og iðnaðar- og viðskiptaráðherra sem heimilar Landsneti að halda áfram lagningu raflína vegna Þeistareykjavirkjunar og iðnaðarsvæðisins á Bakka.

Eins og áður hefur verið greint frá felldi úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála tvo úrskurði þann 19. ágúst s.l. um stöðvun framkvæmda vegna framkvæmdaleyfa sem veitt höfðu verið fyrir Þeistareykjalínu 1 og Kröflulínu 4. Þessir úrskurðir voru til bráðabirgða á meðan nefndin fjallaði um kærur Landverndar vegna útgáfu framkvæmdaleyfanna.

Ragnheiður Elín Árnadóttir iðnaðarráðherra mælir fyrir frumvarpinu fyrir hönd ríkisstjórnarinnar. Að hennar sögn verða samkvæmt frumvarpinu fyrri framkvæmdaleyfi felld úr gildi og nýtt framkvæmdaleyfi veitt. Iðnaðarráðherra segir að allt hafi verið reynt til að leysa deiluna og þetta hafi reynst eina leiðin. Framkvæmdirnar sem voru stöðvaðar í síðasta mánuði, geta samkvæmt þessu nú haldið áfram.

Áskoranir frá þremur sveitarfélögum á svæðinu frá því í gær skiptu sköpum í þessari ákvörðun ríkisstjórnarinnar. Í áskorununum var óskað eftir aðkomu löggjafans við að leysa vandann sem kom upp vegna stöðvunar framkvæmdanna.

RÚV sagði fyrst frá þessu


Athugasemdir

Nýjast