Forseti Íslands lagði hornstein að Þeistareykjavirkjun

Hildur Ríkarðsdóttir og Einar Erlingsson aðstoðuðu forseta við hornsteinslagningu.
Hildur Ríkarðsdóttir og Einar Erlingsson aðstoðuðu forseta við hornsteinslagningu.

Forseti Íslands, herra Guðni Th. Jóhannesson, lagði sl. föstudag dag hornstein að Þeistareykjavirkjun, fyrstu jarðvarmavirkjun sem Landsvirkjun reisir frá grunni.

Í fréttatilkynningu segir að fjölmenni hafi verið við athöfnina, sem fór fram í stöðvarhúsinu.

Á Þeistareykjum er nú verið að reisa 90 MWraf jarðvarmavirkjun í tveimur áföngum. Stefnt er að því að ljúka fyrri áfanga haustið 2017 og þeim seinni á fyrri hluta árs 2018. Þeistareykjavirkjun verður 17. aflstöð Landsvirkjunar.

Jónas Þór Guðmundsson, stjórnarformaður Landsvirkjunar, setti athöfnina. Hann sagði í ávarpi sínu að bygging Þeistareykjavirkjunar markaði tímamót fyrir iðnað og atvinnustarfsemi á svæðinu, enda væri traust aðgengi að rafmagni forsenda fyrir uppbyggingu af því tagi sem hafin væri og fyrirhuguð á næstu misserum og árum. Þá kom fram í máli Jónasar að leitast hefði verið við að lágmarka neikvæð umhverfisáhrif framkvæmdanna og jafnframt að lögð hefði verið höfuðáhersla á öryggismál við alla þætti hennar, í samræmi við öryggisstefnu fyrirtækisins. Að síðustu óskaði hann Íslendingum öllum til hamingju með þennan merka áfanga.

Í máli Harðar Arnarsonar, forstjóra Landsvirkjunar, kom fram að um væri að ræða mikilvægan áfanga fyrir fyrirtækið, sem hefði það hlutverk að hámarka afrakstur af þeim auðlindum sem því væri trúað fyrir, með með sjálfbæra nýtingu, verðmætasköpun og hagkvæmni að leiðarljósi. Með þetta hlutverk í huga hefði fyrirtækið lagt mikið upp úr vandlegum undirbúningi og rannsóknum á svæðinu, líkt og við aðrar framkvæmdir á vegum fyrirtækisins. Hann þakkaði nærsamfélaginu á norðausturhorninu, verktökum, eftirlitsaðilum og aðilum vinnumarkaðarins fyrir gott samstarf við framkvæmdina.

Bjarni Benediktsson, efnahags- og fjármálaráðherra,  sagði að allar forsendur væru fyrir því að Þeistareykjavirkjun yrði lyftistöng fyrir samfélagið á Norðausturlandi og öllum Íslendingum til heilla. Framkvæmdin væri til vitnis um það hve Landsvirkjun væri mikilvægt fyrirtæki þegar kæmi að því að skapa grundvallarskilyrði fyrir vöxt og viðhald atvinnulífs í landinu, sem væri stór þáttur í því að tryggja Íslendingum þau lífskjör sem þeir hafa átt að venjast.

Valur Knútsson, yfirverkefnastjóri Þeistareykjavirkjunar, lýsti framkvæmdunum, en hönnun Þeistareykjavirkjunar hófst á haustmánuðum 2011 og hófust framkvæmdir vorið 2015. Fram kom m.a. hjá Val að við framkvæmdina setji Landsvirkjun öryggis- og umhverfismál í öndvegi. Rekin sé svokölluð „núll slysa stefna“ á framkvæmdasvæðinu, sem hafi það markmið að allir starfsmenn komi heilir heim að loknum vinnudegi.

Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, óskaði Landsvirkjun og Íslendingum öllum til hamingju með Þeistareykjavirkjun. Hann lagði í ávarpi sínu áherslu á að sjónarmið um sjálfbærni réðu ferðinni við nýtingu náttúruauðlinda Íslendinga. Þörf væri á langtímahugsun og ná þyrfti sátt um jafnvægi á milli nýtingar og verndar. Guðni sagði ánægjulegt að Íslendingar hefðu samþykkt niðurstöðu loftslagsráðstefnunnar í París á síðasta ári, en þjóðin hefði einmitt lagt sitt af mörkum í baráttunni við loftslagsbreytingar með nýtingu endurnýjanlegrar orku í stað kolefnaeldsneytis.

 

 


Athugasemdir

Nýjast