Fjölskyldur í forgang

Fjölskyldan stendur öllum næst og það er mikið talað um að hvað þurfi að gera fyrir fjölskyldurnar í landinu.  Það er þá oftast átt við yngra fólk með börn á framfæri, enda lífsbaráttan oftast þyngst á fyrstu búskaparárunum. Þegar hins vegar er skoðað hvað er gert til þess að létta barnafjölskyldum róðurinn vandast málið. 

Það eru örugglega ekki mörg lönd í okkar heimshluta þar sem eins lítið tillit er tekið til barna varðandi opinberar álögur og hér á Íslandi.  Eftir hrun voru barnabætur hækkaðar verulega, en þær hafa aftur lækkað mikið og fæstir spá nokkuð í þær lengur, því upphæðirnar eru hættar að skipta máli í heimilisbókhaldinu. 

Tíminn er fljótur að líða og áður en maður veit af eru börnin orðin stór, en einmitt þess vegna skiptir svo miklu máli að búa sem best að þeim.  Það atlæti sem börn njóta á unga aldri er veganesti þeirra út í lífið. 

Baráttumál Samfylkingarinnar og eitt af mörgu sem verður kosið um á laugardag, er lenging fæðingarorlofsins og hækkun á greiðslum upp í 600 þúsund á mánuði. Við viljum tvöfalda upphæð barnabóta og jafnframt ráðast í aðgerðir í húsnæðismálum.  Húsnæðismál eru samfélagsverkefni og til lausnar á bráðavanda verða vaxtabætur fyrirframgreiddar upp að 3 milljónum, til útborgunar í fyrstu íbúð.  Á næstu árum viljum við líka byggja 5.000 leiguíbúðir. 

Það er sjálfsögð krafa hverrar fjölskyldu að búa við mannsæmandi lífskjör og öruggt húsnæði, og með jafnari tekjuskiptingu er það vel hægt í einu ríkasta landi heims.   Við megum ekki gleyma því að við berum sameiginlega ábyrgð á sérhverju barni sem fæðist inn í okkar samfélag, og undir henni þurfum við að standa.

 

Athugasemdir

Nýjast