Fab Lab smiðja opnar á Akureyri

Jón Þór Sigurðsson, verkefnastjóri Fab Lab smiðjunnar. Mynd: Óskar Þór Halldórsson/vma.is
Jón Þór Sigurðsson, verkefnastjóri Fab Lab smiðjunnar. Mynd: Óskar Þór Halldórsson/vma.is

Í byrjun næsta árs hefst starfsemi nýrrar Fab Lab smiðju á Akureyri í húsnæði Verkmenntaskólans á Akureyri (VMA). 

Á síðasta ári var félagið FabEy sett á laggirnar en það er hollvinafélag um stofnun og rekstur Fab Lab smiðjunnar. Að félaginu stóðu í upphafi Nýsköpunarmiðstöð Íslands, VMA, Akureyrarbær og Símenntunarmiðstöð Eyjafjarðar. Frá þessu er greint á vef VMA.

Nýtist bæði nemendum og almenningi

En hverjum kemur svona smiðja til með að nýtast? „Fab Lab er stafræn smiðja sem er opin fyrir almenning og skólana hér á svæðinu. Fólk nýtir sér að vild aðstöðuna og þá tækni sem hér er í boði. Þessi starfsemi er ekki rekin í hagnaðarskyni, heldur er fyrst og fremst haft að leiðarljósi að fólk geti nýtt sér aðstöðuna á kostnaðarverði. Til þess að geta nýtt sér aðstöðuna er gott fyrir fólk að fara á námskeið og fá betri innsýn í þau forrit sem þarf að nota til þess að nýta sér tæknina í smiðjunni. Fab Lab smiðjan nýtist skólunum mjög vel – öllum skólastigum - og ég sé fyrir mér að hún nýtist sérstaklega vel fyrir frumkvöðla sem ellegar þyrftu að fá ýmsa þjónustu jafnvel erlendis frá,“ segir Jón Þór Sigurðsson, verkefnastjóri smiðjunnar á vef VMA.

Hann segir einnig að staðsetningin í VMA sé afar hentug og að smiðjan komi til með að nýtast mörgum deildum skólans vel t.d. listnáms- og hönnunarbraut, byggingadeild, rafiðnaðarbraut og málmiðnaðarbraut. Hann leggur þó áherslu á að þó Fab Lab smiðjan sé til húsa í VMA þá er hún jafnt ætluð öðrum skólum á Akureyri sem og almenningi öllum á  Eyjafjarðarsvæðinu.

Fab Lab smiðjunni er skipt í þrjú svæði, tölvustofu, aðalrými og rými fyrir stóra fræsarann, en smiðjan er í rými sem áður tilheyrði rafiðnaðardeild skólans og er á hægri hönd þegar gengið er inn um norðurinngang skólans.

Boðið upp á námskeið

Símenntunarmiðstöð Eyjafjarðar heldur utanum námskeið í Fab Lab sem fyrirhugað er að hefjist í febrúar á næsta ári. Jón Þór segir að ekki sé búið að negla niður dagskrá fyrir smiðjuna en reiknar með að á skólatíma verði hún nýtt af skólunum og eftir það verði hún opin almenningi.

Í Fab Lab smiðjunni eru þrívíddarprentarar þar sem hægt er að prenta út allskyns hluti, í fræsara er unnt að fræsa út rafrásir og laserskurðvélar skera og prenta. þær er t.d. hægt að nota til þess að prenta út myndir á nánast hvað sem er. Vínylskeri sker út allskyns merkingar  t.d. til að setja á veggi eða í glugga og stór fræsari er síðan væntanlegur. Einnig verða í smiðjunni  ýmiskonar smærri tæknibúnaður og tölvur sem verða í öðru aðalrými smiðjunnar. Þar verða m.a. Fab Lab námskeiðin haldin.

Opnun í janúar

„Við stefnum að því að opna smiðjuna fyrir almenning í janúar og þá verður hún vonandi að mestu leyti búin þeim tækjum sem við þurfum. Ég er mjög bjartsýnn á þetta og hef fundið fyrir miklum velvilja bæði hér innan skólans og úti í bæ. Ég er því viss um að þetta mun ganga vel,“ segir Jón Þór Sigurðsson á vef VMA. Hann er Akureyringur og á að baki þriggja ára nám í margmiðlunarhönnun í Barcelona á Spáni og síðan tók hann eitt ár til meistaraprófs í stafrænum arkitektúr.                 

„Fab Lab stendur fyrir „Fabrication Laboratory“ og er alþjóðlegt net stafrænna smiðja með tækjum og tólum til að búa til nánast hvað sem er. Fab Lab gefur fólki á öllum aldri tækifæri til þess að þjálfa sköpunargáfuna og hrinda hugmyndum sínum í framkvæmd með því að hanna, móta og framleiða hluti með aðstoð stafrænnar tækni. Í Fab Lab smiðjum er tækjabúnaður af fullkomnustu gerð; fræsivél, vinylskeri, laserskeri, þrívíddarprentarar, rafeindaverkstæði til ýmiskonar tækjasmíða, rammar og efni til þess að þrykkja t.d. á boli, borðtölvur með uppsettum forritum o.fl,“ segir á vef VMA.

Áhersla á samvinnu

Fab Lab smiðjur er þegar að finna á sexstöðum á landinu og hafa aukið mjög á tæknifæri almenning og hafa hvetjandi áhrif á ungt fólk til að sækja sér tæknimenntun. Þær auka þekkingu á persónumiðaðri framleiðslu, stafrænum framleiðsluaðferðum í iðnaði efla nýsköpun í landinu.

Eigandi Fab Lab vörumerkisins er Massachusetts Institute of Technology í Bandaríkjunum en Nýsköpunarmiðstöð Íslands hefur umsjón með verkefninu á Íslandi. Fab Lab Ísland er samstarfsvettvangur þar þekkingu og reynslu er miðlað milli þeirra allra Fab Lab smiðjanna á landinu. 

 


Athugasemdir

Nýjast