Ekki skal nota salt til hálkuvarna á götum Akureyrar

Í grein sem birt var á visir.is rétt fyrir jólin var því slegið upp í fyrirsögn að ég vildi nota salt á götur Akureyrar. Þegar ég rak augun í þessa frétt brást ég hratt við og afneitaði þessu í færslu á fésbókinni. Þá var fréttinni breytt og ég sagður vilja nota salt hóflega á götur Akureyrar.

Á Þorláksmessu var haft samband við mig frá Reykjvík síðdegis á Bylgjunni. Vildu þeir félagar ræða við mig um saltnotkun á götur Akureyrar sem hálkuvörn. Ég fékk þar tækifæri til að leiðrétta þessa frétt, en ég er í raun á móti því að nota salt til hálkuvarna nema í algjörri neyð.

Ég hef svo komist að því hvað veldur þessum misskilningi á afstöðu minni til saltnotkunar. Það er sú bókun sem er í fundargerð bæjarstjórnar Akureyrar 20.12.2016. Þar segir orðrétt:

„Gunnar Gíslason D-lista lagði fram breytingatillögu á kafla 2.1.11 Hálkuvarnir þannig að í Aðgerðum standi: Gerð verði skoðanakönnun meðal íbúa um leiðir til hálkuvarna og haldinn íbúafundur í kjölfarið. Takmarka skal notkun malarefna, eins og kostur er til að lágmarka myndun svifryks. Nota skal salt til blöndunar í hóflegu hlutfalli og önnur efni sé þess kostur.“

Þetta er ekki alls kostar rétt því í fyrirliggjandi tillögu að Umhverfis- og samgöngustefnu sem var verið að ræða á fundinum stóð í aðgerð 2.1.11 „Takmarka skal notkun malarefna, eins og kostur er til að lágmarka myndun svifryks. Nota skal salt til blöndunar í hóflegu hlutfalli og önnur efni sé þess kostur.“

Þar sem ég hef undanfarin tvö ár óskað eftir því að haldinn yrði íbúafundur til að ræða snjómokstur og hálkuvarnir í bænum, án árangurs, þótti mér það tilraunarinnar virði að koma fram með breytingartillögu á fundinum sem var svohljóðandi: „Gerð verði skoðanakönnun meðal íbúa um leiðir til hálkuvarna og haldinn íbúafundur í kjölfarið.“ Þessi breytingartillaga var samþykkt með 11 samhljóða atkvæðum.

En til hvers að gera skoðanakönnun og halda íbúafund í kjölfarið? Ástæðan er sú að hér verður ávallt mikil umræða um snjómokstur og hálkuvarnir á hverjum vetri og sitt sýnist hverjum. Það hefur reyndar verið sagt að hér búi hið minnsta 18.000 sérfræðingar á þessu sviði. Það má rétt vera en það gerir það því mikilvægara að taka umræðu um þessi mál. Hér á Akureyri hefur salt verið notað sem íblöndunarefni í möl sem borin er á ákveðin staði. Það hefur enginn verið spurður um það hvort þett sé það sem íbúar hér vilja almennt. Ég tel því fulla ástæðu til að kanna vilja íbúa hvað þetta varðar og ræða svo niðurstöðurnar í kjölfarið.

Það má einnig segja það sama um fyrirkomulag snjómoksturs. Það er full ástæða til að kanna hug fólks til hans. Akureyrarbær greiðir í venjulegu ári ríflega 100 milljónir í snjómokstur og hálkuvarnir og ríflega 30 milljónir í hreinsun gatna í kjölfarið. Þetta eru háar upphæðir og mörgum finnst nóg um. Auðvitað eigum við ávallt að reyna allt sem við getum til að halda kostnaði í lágmarki, en sumt er óhjákvæmilegt og stundum þurfum við að gera betur og það getur leitt af sér aukinn kostnað. Þetta er einmitt það sem þarf að kanna meðal íbúa og ræða. Við þurfum að ná ákveðinni sátt um þessi mál sé þess nokkur kostur og það verður ekki gert nema með virku samtali við íbúa.

Það er oft rætt um aukið íbúalýðræði á hátíðarstundum, hér er einmitt tækifæri til að standa við þau orð og taka umræðu við íbúa um mál sem flestir ef ekki allir hafa skoðun á. Ég geri ráð fyrir því að fljótlega verði könnun gerð og boðað til íbúafundar þar sem tillaga mín um það var samþykkt samhljóða.

Að lokum vil ég óska íbúum Akureyrar velfarnaðar á nýju ári og þakka samskipti og samveru á því liðna.

Höfundur er bæjarfulltrúi á Akureyri


Athugasemdir

Nýjast