Blað allra landsmanna umboðslaust á Húsavík!

Mogginn býr við umboðsleysi á Húsavík.
Mogginn býr við umboðsleysi á Húsavík.

Fyrir fáeinum vikum var borið í öll hús á Húsavík bréf frá Morgunblaðinu, blaði allra landsmanna, þar sem óskað var eftir umboðsmanni til að annast dreifingu á blaðinu í bænum. Þessu flugriti var svo í annað sinn aldreift viku síðar eða svo.

Enn síðar hafði starfsmaður Moggans samband við ritstjóra Skarps, sem staðkunnugan mann í bænum, og spurði hvort hann gæti stungið upp á einhverjum sem hugsanlega væri tilbúinn að taka að sér þetta virðingarembætti, því engir höfðu brugðist við bænaskjali blaðsins og tekið því fagnandi að fá að dreifa fagnaðarerindinu til áskrifenda á Húsavík. En það símtal skilaði ekki heldur neinu.

Og niðurstaðan því sú að um þessar mundir er Morgunblaðið án umboðsmanns á Húsavík og Pósturinn sér um dreifingu á því til áskrifenda í bænum. Og þetta hefur það einnig í för með sér að helgarblað Moggans er ekki fáanlegt í lausasölu um helgar og ekki fyrr en eftir helgina (og telst því ekki lengur helgirit) og er sérlega bagalegt fyrir þá sem hafa það fyrir sið að kaupa helgarblaðið sérstaklega til að glíma við krossgátuna. Því ef krossgátufíklar geta ekki hafist handa við þrautina á laugardegi heldur þurfa að bíða fram á mánudag eða þriðjudag, þá er tíminn orðinn heldur naumur til að koma lausninni í póst og þar með möguleikinn á verðlaunum útilokaður.

Þarna mismunar blað allra landsmanna landsmönnum eftir búsetu. Og er svo sem ekkert nýtt, áskrifendur í nærsveitum Húsavíkur fá ekki Moggann sinn nema endrum og sinnum og jafnvel fimmtudagsblaðið ekki fyrr en á mánudegi eða þriðjudegi í næstu viku. Og þar er ekki við Moggann að sakast og ástæðan auðvitað gríðarlegur niðurskurður í póstþjónustu í sveitum.

En vissulega vekur það við fyrstu sýn furðu að gegnheilir Sjálfstæðismenn á Húsavík, og þeir eru margir, skuli ekki einfaldlega sameinast um að taka að sér umboðið fyrir málgagnið og hreinlega skiptast á um að bera það út og koma því í verslanir með sameinuðu átaki. Því hér áður fyrr voru dæmi um að góðir og gegnir Framsóknarmenn í bænum báru út Tímann og Dag af hugsjónaástæðum einum saman og flokknum að kostnaðarlausu.

En sjálfsagt er þetta ástand hjá Mogganum bara tímanna tákn um minnkandi flokkshollustu og kulnandi hugsjónaeld. /JS


Athugasemdir

Nýjast