Ásubergsskipið afjúpað í Könnunarsögusafninu

Lorenzo Perini með líkanið glæsilega.  Mynd: Heiðar Kristjánsson.
Lorenzo Perini með líkanið glæsilega. Mynd: Heiðar Kristjánsson.

Það fjölgaði í flota Könnunarsögusafnsins á Húsavík s.l. sunnudag þegar þar var afhjúpað líkan af Ásubergsskipinu. Ásubergsskipið er heimsþekkt en það var grafið úr jörðu við Oseberg í Noregi árið 1903,  er 21,5 metrar að lengd og 5 að breidd, með seglum og fimmtán árapörum. Líkanið er mun minna.

Það er mikil völundarsmíð og heiðurinn af því á ítalski módelsmiðurinn Lorenzo Perini og hefur hann unnið við smíðina síðustu vikur. “Þetta er mjög kærkomin viðbót við víkingasýningu The Exploration Museum og við kunnum Lorenzo bestu þakkir fyrir þetta frábæra verk.” Sagði Örlygur Hnefill Örlygsson, safnstjóri.

Lorenzo flutti tölu þar sem hann fjallaði um langskipið og gerð þess og einnig um módelsmíðina og það ferli. Hann gat þess m.a. að það væru ákveðin líkindi í hönnun skipsins og gondólanna í Feneyjum, en báðir rista þessir farkostir afar grunnt. Lorenzo mælti á ítölsku og bróðir hans Francesco, sem hefur verið búsettur á Húsavík í 2 ár,  snaraði á ensku.

Langskip voru seglskip sem saxar og norrænir menn notuðu sem herskip og til að sigla upp ár og leggja upp á grynningar þegar þeir herjuðu á Bretlandseyjum og á meginlandi Evrópu fram til loka Víkingaaldar. Skipin voru lág, mjó og rennileg, súðbyrt með kjöl, hliðarstýri og eitt mastur með ferhyrndu rásegli. Þeim var bæði siglt og róið með árum.

Langskip ristu grunnt og hentuðu því vel til að sigla í grunnu vatni, til að sigla upp á strönd og til að bera yfir farartálma. Þessir sömu eiginleikar gerðu það að verkum að þau hentuðu síður til úthafssiglinga.  JS


Athugasemdir

Nýjast