„Aðför að réttarkerfinu“

Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráherra. Mynd: Heiðar Kristjánsson
Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráherra. Mynd: Heiðar Kristjánsson

Landvernd hefur hrint af stað undirskriftarsöfnun á heimasíðu sinni í þeim tilgangi að fá Alþingi til að samþykkja ekki frumvarp Ragnheiðar Elínar Árnadóttur, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, um framkvæmdaleyfi Landsnets til þess að fara með raflínur frá Kröflu að Þeistareykjum og þaðan áfram að iðnaðarsvæðinu á Bakka.

„Landvernd og Fjöregg í Mývatnssveit kærðu framkvæmdaleyfi sveitarfélaga fyrir lagningu raflína til nefndarinnar. Hlutverk nefndarinnar er að úrskurða í kærumálum vegna ákvarðana stjórnvalda. Lögum samkvæmt á úrskurðarnefndin að vera sjálfstæð í störfum sínum,“ segir á heimasíðu Landverndar.

Þegar þetta er ritað hafa tæplega 1400 manns ritað nafn sitt á listann. Í tilkynningu á heimasíðu Landverndar kemur fram að mikil náttúruverndarverðmæti séu á línuleiðinni m.a. svæði á náttúruminjaskrá og nútímahraun sem njóta sérstakrar verndar samkvæmt náttúruverndarlögum.

Landvernd kærði útgáfu framkvæmdaleyfa Þingeyjarsveitar og Skútustaðahrepps til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála eins og áður hefur komið fram. Sú nefnd starfar samkvæmt Árósarsamningnum og á að vera óháð. Framkvæmdaleyfin verða hins vegar gerð ógild verði frumvarpið að lögum og þar með mun málið hverfa af borði nefndarinnar. Þess í stað verður framkvæmdaleyfið sett inn í lögin, og þá verður ekki hægt að kæra það til nefndarinnar.

Grafalvarlegt inngrip

Þá kemur fram í tikynningunni að afskipti stjórnvalda sé grafalvarlegt inngrip inn í störf óháðrar úrskurðarnefndar. „Spyrja má hvort stjórnvöld myndu grípa inn í störf dómstóla með sama hætti. Þessi gjörningur er aðför að réttarkerfinu, þrískiptingu valds og réttlátri málsmeðferð. Það er skýlaus réttur fólks að geta borið ákvarðanir stjórnvalda undir sjálfstæðan og óháðan aðila og fá úrskurð um lögmæti ákvarðana,“ segir í tilkynningunni.

Frumvarp Ragnheiðar Elínar fór í gegnum fyrstu umræðu á síðastliðinn föstududag og var vísað til atvinnuveganefndar. Gert er ráð fyrir að frumvarpið verði orðið að lögum áður en þessi þingi lýkur.


Athugasemdir

Nýjast